Bergþór Ólason, þingflokksformaður Miðflokksins, býður sig og Sigmund Davíð formann til að taka við af Vinstri grænum í ríkisstjórn Íslands. Það yrði kannski eðlilegt. Bergþór kom frá Sjálfstæðisflokki og Sigmundur Davíð kom auðvitað frá Framsókn. Þannig mætti segja að þá yrði komin saman tveggja flokka stjórn. Það er í Moggagrein í dag sem Bergþór setur þetta fram. Mest fjallar hann samt um hvalveiðibann Svandísar Svavarsdóttir.
„Sjálfstæðismenn hafa nokkrir talað mikið í kjölfar ólögmætrar ákvörðunar matvælaráðherrans. Á fundi á Akranesi sem Verkalýðsfélag Akraness hélt stuttu eftir að ákvörðun ráðherrans var kynnt kom fram fortakslaus krafa þingflokks Sjálfstæðisflokksins um að ákvörðunin yrði endurskoðuð. Í gær birtist grein eftir þingflokksformann Sjálfstæðisflokksins þar sem sagði með öðrum orðum að þingmenn stærsta stjórnarflokksins hefðu misst allt traust til matvælaráðherrans og það myndi hafa áhrif á samstarf í ríkisstjórn,“ skrifar Bergþór Ólason.
Svo þetta: „Ég verð því að spyrja – og hvað svo?
Ætlar þingflokkur Sjálfstæðisflokksins að láta þessa vanvirðingu og lögleysu matvælaráðherrans yfir sig ganga? Ætlar þingflokkurinn að taka þátt í því að virða atvinnuréttindi stjórnarskrárinnar að vettugi svo ráðherra geti gengið sinna pólitísku erinda? Ætlar þingflokkurinn að sitja í ríkisstjórnarsamstarfi sem er rúið trausti? Ætlar þingflokkurinn sem í orði „berst fyrir atvinnufrelsi, sjálfbærri nýtingu auðlinda og stjórnsýslu þar sem meðalhófs er gætt,“ svo vísað sé í orð þingflokksformannsins, að berjast fyrir því á borði?“
Bergþór er ekki hættur þarna:
„Orð eru nefnilega ódýr. Ókeypis raunar ef menn láta ekki kné fylgja kviði.
Eins og fram kom á fundinum á Akranesi liggur fyrir að hægt væri að mynda nýja ríkisstjórn á morgun, með Sjálfstæðisflokki, Framsókn og Miðflokki, og vinda ofan af þessari lögleysu og vitleysu matvælaráðherrans. Það er mín ósk fyrir gömlu vini mína í Sjálfstæðisflokknum að þeir gangi ekki með galopin augun í gegnum sína mestu niðurlægingu seinni tíma – að sitja sem fastast í þessu ríkisstjórnarsamstarfi með Vinstri grænum.“