- Advertisement -

Miðflokkurinn „til varnar“ Samherja

Við sem hér erum skulum líka hafa í huga að þessi salur er málstofa en ekki dómsalur.

Tveir þingmanna Miðflokksins tóku þátt í þingumræðunni um spillingu. Umræðuna ber nánast upp á ársafmæli Klaustursmálsins. Þingmennirnir tveir eru Þorsteinn Sæmundsson og Karl Gauti Hjaltason. Báðir vilja þeir að þjóðin stígi varlega ti jarðar í Samherjamálinu.

Þorsteinn sagði á Alþingi:

„Það mál sem við ræðum hér er grafalvarlegt og getur, ef málsatvik eru með þeim hætti sem lýst hefur verið, haft veruleg áhrif í för með sér. Því ríður á að viðbrögð stjórnvalda séu fumlaus, örugg og með réttum hætti,,“ sagði Þorsteinn og bætti við:

Þú gætir haft áhuga á þessum

„Við skulum líka hafa í huga að málið er nú þegar í höndum réttra og til þess bærra aðila. Samkvæmt því sem fram kom í máli héraðssaksóknara í morgun í fjölmiðli hefur málið verið til rannsóknar um nokkurn tíma. Við sem hér erum skulum líka hafa í huga að þessi salur er málstofa en ekki dómsalur. Það er ekki okkar sem hér erum að fella dóm í þessu máli hér og nú. Það er hvorki tímabært né samkvæmt lögum. Við skulum sjá hvað kemur í ljós þegar rannsókninni vindur fram. Það er þó óneitanlega dapurlegt að sjá að svo virðist sem íslenskt stórfyrirtæki hafi beitt fátækt ríki ofríki í nýtingu náttúruauðlinda þess. Við vorum í denn upptekin af því að hér voru flotar stórríkja uppi í landsteinum en nú erum við farin að beita sömu aðferðum annars staðar í heiminum. Það er dapurlegt. Við skulum samt hafa í huga að það er hverju ríki nauðsynlegt að varðveita náttúruauðlindir sínar og tryggja vald yfir þeim. Mjög nýlega stigum við skref í þessum sal í þveröfuga átt,“ sagði Þorsteinn og endaði svona:

„Ég ætla að ljúka ræðu minni með því að vitna í Søren Kierkegaard. Hann sagði einhvern tímann á þessa leið, með leyfi forseta: „Ef þú brennur í skinninu að breyta heiminum, byrjaðu þá á einhverju nærtæku, sjálfum þér.““


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: