„Ég hugsa til starfsmanna Samherja sem horfa nú á stríðsfyrirsagnir um fyrirtækið og stjórnendur þess. Sérstakt samband virðist milli Ríkisútvarpsins og Stundarinnar enda er oft sagt að líkur sæki líkan heim.“
Það er Gunnar Bragi Sveinsson, varaformaður og þingflokksformaður Miðflokksins, sem þannig skrifar í Mogga dagsins.
Þegar hefur komið fram að Miðflokkurinn virðist ætla að stilla sér upp í varnarmúr Samherja. „…enda er oft sagt að líkur sæki líkan heim,“ skrifaði Gunnar Bragi.
Gunnar Bragi vakti þjóðarathygli þegar hann fór á „leyndófundinn“ hjá LÍÚ.
„Þurfum að fara núna í LÍÚ.“ Þannig orðaði Gunnar Bragi Sveinsson sms-skeyti til formanns síns, Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar, sem var sent í mars 2011. Hann sendi síðan annað sms-skeyti til Vigdísar Hauksdóttur: „ „Erum að fara á leyndófund LÍÚ segi þér síðar.“
„Ríkisútvarpið og Stundin hafa áður sængað saman og þá matreitt málin eftir eigin höfði til þess eins að gera hlutina enn verri. Því er mikilvægt að bíða eftir heildarmyndinni áður en opinberar aftökur hefjast. Auðvitað vonar maður að það taki ekki of langan tíma að rannsaka málið og að starfsmenn Samherja haldi áfram stoltir að búa til gjaldeyri fyrir þjóðina,“ skrifar Gunnar Bragi.
Gunnar Bragi er ekki áhyggjulaus: „Það er slæmt fyrir okkur öll þegar eitt af öflugustu fyrirtækjum landsins er sakað um vafasama viðskiptahætti. Eðlilegt er að þeir sem ábyrgð bera svari fyrir það. Þeir og aðrir sem að fyrirtækinu standa eða starfa hjá því eiga fjölskyldur, börn sem skilja ekki orðin sem notuð eru eða hvers vegna fjölskyldufaðirinn eða móðirin blandast inn í þá umræðu sem búin var til með æsifréttastílnum. Æsingur fjölmiðilsins til að ná athyglinni er stundum svo mikill að annað skiptir ekki máli. Athygliskeppnin er eins og aurskriða sem engu eirir og síst sannleikanum sem kannski kemur í ljós seint og um síðir.“