„Miðflokkurinn mun sitja hjá við afgreiðslu þeirra. Miðflokkurinn mun koma með eigin lausnir í efnahags- og atvinnumálum fyrir kosningar, lausnir sem við munum síðan hrinda í framkvæmd í næstu ríkisstjórn,“ sagði ræðukóngur Alþingis, Birgir Þórarinsson í umræðunni um fjarmálaáætlun 2022 til 2026.
Birgir sagði miklar áskoranir vera fram undan í hagstjórn í landinu. „Mikill hallarekstur ríkissjóðs, atvinnuleysi í hæstu hæðum, verðbólga hefur ekki mælst hærri í mörg ár og vextir fara hækkandi. Hér kemur svo ríkisstjórnin með fjármálaáætlun sem leysir engan vanda, fjármálaáætlun sem einkennist af metnaðarleysi og hefur enga stefnumótun málefnasviða. Þau eru tekin út vegna þess að ríkisstjórnin hefur ekki kjark til að taka umræðu um það. Þessi áætlun er ekki að blása þeim þúsundum Íslendinga sem eru atvinnulausir von í brjóst. Miðflokkurinn getur ekki stutt hana. Hluti stjórnarandstöðunnar leggur hér fram ófjármagnaðar breytingartillögur, kosningabæklinga um milljarðahækkanir hér og þar.“