„Í bákninu felst gífurleg sóun á almannafé. Þeir sem vinna hjá opinberum aðilum hafa engan skilning á því að sú staða getur komið upp að ekki sé til fyrir launum. Uppsagnir eru að mestu óþekkt fyrirbæri í opinbera kerfinu. Það er kominn tími til að það breytist. Í einu ráðuneyti gengur einn starfshópur undir nafninu „dauðadeildin“ af því að þeir starfsmenn hafa ekkert að gera,“ segir í nýrri Moggagrein Styrmis Gunnarssonar.
Styrmir leggur mikið upp úr kosningaloforði Sjálfstæðisflokksins; Báknið burt. Styrmir minnir að vísu á að loforðið er fimmtíu ára gamalt.
„Að koma böndum á báknið er því verðugt verkefni en það er bæði flókið og víðtækt. Um skeið virtist Miðflokkurinn ætla að taka forystu í því en hann hefur ekki fylgt því eftir. Sjálfstæðisflokkurinn er vel til þess fallinn en þá verður hann líka að horfast í augu við eigin ábyrgð á bákninu,“ skrifar Styrmir. Sýnilega ósáttur við að Miðflkkurinn af snúið af leið.
„Auðvitað er hneyksli að þetta skuli vera svona en engu að síður staðreynd. Standi Sjálfstæðisflokkurinn við stóru orðin í þetta sinn verður það honum mikil lyftistöng í kosningabaráttunni.
Það er þekkt í stærri einkafyrirtækjum að kostnaður við æðstu stjórnendur þeirra hefur tilhneigingu til að vaxa of mikið. En reynslan er sú að þau rétta sig af og skera þann umframkostnað niður. Það gerist ekki hjá opinberum aðilum, hvorki hjá ríki né sveitarfélögum. Þetta sjáum við mjög skýrt hjá stærri sveitarfélögum hér.
Við þurfum að hefja mikið átak hér í þessum efnum í opinbera kerfinu öllu. Þótt það kunni að þykja undarlegt á eyðslan á opinberu fé sér rætur í löngu liðnum tíma, þegar „yfirstéttin“ var í betri aðstöðu bæði hér og annars staðar til að lifa á kostnað almennings.“