Helstu „skyttur“ Miðflokksins skjóta á Framsókn við hverju hreyfingu og öll tækifæri, möguleg og ómöguleg. Framsókn á ekkert svar við skothríð Miðflokksins.
Metnaðarleysi ráðherrans
Nýjast eru föst skot Gunnars Braga á Sigurð Inga, sem enn er formaður Framsóknar, í Mogganum í dag.
„Samgönguráðherra hefur lagt fram samgönguáætlun og eftir allan belginginn um „stórátak“ o.s.frv. fæðist lítil mús. Enn og aftur eru fjármunir of litlir og í engu samræmi við digurbarkalegar yfirlýsingar ráðherrans. Það er sorglegt að sjá metnaðarleysið er kemur að Reykjanesbrautinni þar sem áfram er gert ráð fyrir því að umferðin verði teppt í báða enda í fyrirsjáanlegri framtíð. Meðan sveitarfélögin við Reykjanesbrautina vaxa og dafna með nýjum íbúum bíður mikilvæg uppbygging samgangna. Það er eðlileg krafa íbúa og þingmanna kjördæmisins að Reykjanesbrautin verði kláruð en ekki skilið við hana eins og bútasaumsteppi. Upp úr stendur vitanlega líka að samgönguráðherrann er strax búinn að skipta um skoðun á veggjöldum og talar nú fyrir því að notendur fjármagni framkvæmdir.“
Vildarklúbbur Framsóknarmanna
Í gær birti Miðjan frétt um málflutning Þorsteins Sæmundssonar, þar sem hann sagði meðal annars: „En Íbúðalánasjóður er nú orðinn að eins konar rannsóknarsetri og fyrir utan það þá er hann skurnin ein, vegna þess að einhver vildarklúbbur Framsóknarmanna hefur gengið þar um eins og menn í kaupfélagi og afgreitt sig sjálfir og keypt íbúðir af Íbúðalánasjóði undanfarin 10 ár fyrir 57 milljarða kr. Þessar íbúðir hefðu betur verið komnar í leigu fyrir fólk sem hefur lágar tekjur.“
Árangurinn að skila sér
Víst er að sóknarfæri Miðflokksins gegn Framsókn eru mikil. Miðflokkurinn eykur fylgi sitt meðan Framsókn mælist með fádæma lítið fylgi. Þar sem Miðflokkurinn hefur herskáa þingmenn má telja víst að þeir eigi eftir að herða sóknina gegn varnarlausri Framsókn.
Íbúðalánasjóður orðin að sjálfsafgreiðslukaupfélagi Framsóknarflokksins