Fréttir

„Miðflokksmenn eru hálfvitar“

By Miðjan

May 24, 2019

„Fyrirgefið mér orðbragðið, ég er ekki vanur að taka svona til orða um fólk en nú get ég ekki lengur haldið í mér enda held ég sé komin tími til að grípa til orðbragðs sem hæfir þeim og þeir skilja: Miðflokksmenn eru hálfvitar (með kannski einni undantekningu). Og kjósendur þeirra hálfu verri, illa innrætt og heimskt fólk svo það sé sagt. Þetta er þyngra en tárum taki en nauðsynlegt að segja það. Þeir eru stórhættulegir þjóðinni.“

Það er leikarinn Pálmi Gestsson sem þannig skrifar á Facebook. Í umræðunni sem fylgir skrifum Pálma kemur fram að undantekningin sé Þorsteinn Sæmundsson. Ein segir Pálmi að afstaða hans byggist ekki einungis á málþófinu, hún sé uppsöfnuð.

„Mér þykir ekki fallegt af þér að tala með þessum hætti til meirihluta þjóðarinnar sem er á móti málinu sem nú er til umræðu á Alþingi. Get ekki tekið undir með þér að meirihluti þjóðarinnar sé undirmálsfólk,“ skrifar Þorsteinn Sæmundsson og segir að meirihluti þjóðarinnar fylgi þeim í andstöðunni við þriðja orkupakkann.

Þingmenn Miðflokksins ræða enn um orkupakkann og hafa verið að í alla nótt. Nokkru fyrir klukkan sjö í morgun bauð Steingrímur J. Sigfússon Birgi Þórarinsson orðið og sagði að um tímamótaræðu væri að ræða, þar sem þetta væri tuttugasta ræðu Birgis um málið.