Stjórnmál

Miðflokksmenn duttu í fullkomna dellu

By Miðjan

March 23, 2021

„Ég hef oft verið hrifinn af Miðflokksmönnum, stundum hitta þeir naglann á höfuðið. En svo allt í einu detta þeir inn í alveg fullkomna dellu, sem endurspeglar auðvitað svolítið það sem er að gerast í samfélaginu,“ sagði Brynjar Níelsson, sem berst gegn lögum um refsingar við launaþjófnaði

„Vinnumarkaður heitir vinnumarkaður vegna þess að þetta er markaður. Hann byggir á gagnkvæmum samningum þar sem eru gagnkvæmar efndir. Svo allt í einu hafa menn einhvern veginn farið að glæpavæða hugsanlegar vanefndir eða ágreining um endurgjaldið. Hvert erum við komin, kæru háttvirtu þingmenn Miðflokksins? Hér hefur orðið einhver veruleg gloppa. Hvað er þá næst? Ef launamaðurinn efnir ekki endurgjaldið af sinni hálfu á að sekta hann? Nei. Ef vanefndir eru eiga menn rétt á dráttarvöxtum. Það eru viðurlögin við vanefndum. Nú ætla menn að búa til einhver önnur viðurlög sem heita bara stjórnvaldssektir. Hvað gerðist í þingflokksherbergi Miðflokksins? Það er stóra spurningin. Þar hefur eitthvað farið úrskeiðis. Stéttarfélög, menn eru frjálsir í því að vera ekki einu sinni í stéttarfélögum. Þetta er allt einhvern veginn á skjön við hefðbundinn vinnumarkað, við þau réttindi og skyldur sem menn hafa þar.“