Fréttir

Miðbærinn ekki einkaeign borgarstjóra

By Miðjan

April 20, 2020

„Miðbær Reykjavíkur er ekki einkaeign borgarstjóra“

„Enn á ný er ráðist að fjölskyldubílnum með því að fækka bílastæðum í miðbæ Reykjavíkur,“ bókaði Vigdís Hauksdóttir í borgarráði.

„Afleggja á í þessu verkefni um 50 bílastæði. Verið er að breyta Tryggvagötu frá Lækjargötu að Gróf í einstefnugötu. Tollstjóraembættið var sameinað ríkisskattstjóra fyrir skömmu og meirihlutanum er bent á að stofnunin er ríkisstofnun sem allir landsmenn verða að hafa greiðan aðgang að. Miðbær Reykjavíkur er ekki einkaeign borgarstjóra og meirihlutans í Reykjavík,“ segir í bókuninni.

„Með þessum tillögum er verið að beina umferð enn frekar inn á þrönga Geirsgötu sem er tifandi tímasprengja vegna olíuflutninga um götuna. Samkvæmt kostnaðaráætlun 1 er áætlaður kostnaður við breytingarnar 400 milljónir og er sú upphæð komin inn í fjárfestingaráætlun 2020. Þrengingarstefna meirihlutans í miðbænum/gæluverkefni og breytingar sem af henni hlýst er farin að kosta útsvarsgreiðendur milljarða á meðan grunnstoðir svelta og eru að blæða út.“