Sjávarútvegur Þrjár heimahafnir skera sig úr, hvað varðar úthlutaðan kvóta, eins og undanfarin ár með að skip sem þeim tilheyra fá töluvert mikið meira úthlutað í þorskígildum talið en þær hafnir sem á eftir koma. Mest fer til skipa með heimahöfn í Reykjavík eða 13,0% af heildinni samanborið við 13,3% í fyrra. Næstmest fer nú til Grindavíkur, eða 10,5% af heildinni sem er um 2,5%-stiga aukning frá fyrra ári og fleytir þeirri höfn fram úr Vestmannaeyjum sem löngum hefur verið í öðru sæti hvað aflamark varðar. Skip með heimahöfn í Vestmannaeyjum ráða nú fyrir 10,5% úthlutunarinnar, en það felur í sér 0,7%-stiga samdrátt frá fyrra ári.
Hlutfall sem fer til skipa hjá hverri höfn fyrir sig breytist í flestum tilvikum eitthvað og má rekja það til breytinga á þorskígildisstuðlum sem og tilfærslu aflahlutdeilda á milli skipa með ólíka heimahöfn. Vísað er til yfirlitstöflunnar sem tengill er í hér að neðan.
Fiskistofa hefur úthlutað aflamarki fyrir fiskveiðiárið 2014/2015. Úthlutunin fer fram á grundvelli aflahlutdeilda að teknu tilliti til frádráttar fyrir jöfnunaraðgerðir með sama hætti og á fyrra fiskveiðiári. Að þessu sinni er úthlutað 376.026 tonnum í þorskígildum talið samanborið við um 378.828 þorskígildistonnum á sama tíma í fyrra, reiknað í þorskígildum fiskveiðiársins sem nú gengur í garð.Breyting á milli ára er því ekki mikil. Úthlutun í þorski stendur nánast í stað eða hækkar um 600 tonn og nemur rúmlega 171.800 tonnum. Ýsukvótinn dregst enn saman úr 30 þúsund tonnum í fyrra í rúm 24 þúsund tonn í ár. Nokkur aukning er í úthlutun á ufsa, skötusel, grálúðu og skarkola. Nokkur samdráttur er í gullkarfa og keilu. Þá má nefna að humarkvótinn dregst saman um 10%.
Nú er aftur úthlutað kvóta í úthafsrækju, alls tæpum 4.700 tonnum og í fyrsta sinn er úthlutað kvóta í rækju við Snæfellsnes, um 560 tonnum. Til rækju við Snæfellsnes telst rækja í Breiðafirði sunnanverðum, í Kolluál og Jökuldýpi.
Vakin er athygli á að síðar á árinu verður úthlutað aflamarki í deilistofnum og ekki er óalgengt að aukið sé við aflamark í uppsjávarfiski. Þess vegna á heildaraflamark einstakra skipa og hafna og innbyrðishlutfall þeirra eftir að breytast í kjölfar slíkra úthlutana þegar líður á fiskveiðiárið.
Alls fá 578 skip úthlutað aflamarki í upphafi fiskveiðiárs 2014/2015. Mest aflamark fer til Guðmundar í Nesi, RE 13, rúm 8.553 þorskígildistonn eða tæp 2,3% af úthlutuðum þorskígildum.
Úthlutun eftir fyrirtækjum
Fimmtíu stærstu fyrirtækin fá úthlutað sem nemur um 86% af því aflamarki sem úthlutað er og er það álíka og í fyrra.. Alls fá 459 fyrirtæki eða lögaðilar úthlutað nú eða um 30 aðilum færra en í fyrra. Sé litið til þeirra sem eru með mesta úthlutun fær HB Grandi, líkt og í fyrra, mestu úthlutað til sinna skipa eða 10,7% af heildinni, næst kemur Samherji með 6% og þá Þorbjörn hf. með 5,5%. Þetta er sama röð efstu fyrirtækja og undanfarin ár.
Úthlutun eftir útgerðarflokkum
Smábátar með aflamark og krókaaflamark sem fá úthlutað aflamarki eru töluvert færri í ár en á fyrra ári eða 393 samanborið við 441 áður. Skipum í aflamarkskerfinu fækkar um 24 milli ára og eru nú 258. Athygli vekur að togurum fækkar um 5 og eru nú 50. Samkvæmt útgerðarflokkun Fiskistofu fá skuttogarar úthlutað tæpum 200 þúsund tonnum af því heildaraflamarki sem úthlutað var að þessu sinni o g skip með aflamark fá tæp 190 þúsund tonn. Smábátar með aflamark og krókaaflamarksbátar fá tæp 46 þúsund tonn. Vakin er athygli á því að krókaaflamarksbátar fá eingöngu úthlutað þorski, ýsu, ufsa, gullkarfa, löngu, keilu og steinbít. Rétt er að nefna að við úthlutun nú nú fór að nýju fram á úthafsrækju eftir nokkurra ára hlé þar sem hún var utan kvóta og við innleiðingu á kvóta fyrir rækju við Snæfellsnes þá fá tvö skip án veiðileyfa úthlutað kvóta í þeim tegundum vegna veiðireynslu á undanförnum árum.
Skel- og rækjubætur
Töluvert minna magni er úthlutað nú í upphafi árs sem skel- og rækjubótum en í fyrra eða um 1.775 þorskígildistonnum og fara þau til 42 skipa samanborið við 120 skip á fyrra ári.