- Advertisement -

Mestu fjármálaáföll veraldar að skella á

Stórbankar heimsins eru fullir af rusleignum og margir lafa saman á lyginni.

Ragnar Önundarson skrifar:

Varúð, október er á næsta leiti. Öll helstu fjármálaáföll veraldarinnar verða í októbermánuði. Bankamenn koma úr sumarleyfum í lok ágúst, í september vinna þeir að milliuppgjöri og sjá þá hvort skráð verðbréf hafa fallið i verði á árinu. Stundum er verðfall eignanna nóg til að þurrka eigið féð út. Reynt er að halda eiginfjárhlutfallinu með því að veita ekki ný lán. Þannig stíga þeir á bremsur atvinnulífsins og auka vandann. Við lækkun eiginfjárins missa þeir traust og ríkissjóðir um allan heim og AGS hlaupa til að hjálpa.

Veröldin lét spilaborgina ekki falla 2008 eins og við gerðum. Stórbankar heimsins eru fullir af rusl-eignum og margir lafa saman á lyginni. Nú njótum við þess að hafa látið kröfuhöfunum „blæða“. Íslensku bankarnir hafa há eiginfjárhlutföll og eru vel undirbúnir.


Enginn getur séð fyrir hvenær traustið brestur. Sem betur fer er 13. október nk. ekki föstudagur.

Þó við séum betur undirbúin en aðrir, þá gildir samt að ef nýtt ,,hrun“ verður erlendis lækkar útflutningsverðlag og samdráttur eða tímabundin stöðnun getur orðið í ferðaþjónustu. Svo eru íslensku bankarnir komnir á bremsuna líka, bara til öryggis. Mikilvægt er að lífeyrissjóðir láti ekki nota sig í þessari stöðu. Stóru fyrirtækin þurfa sum nýtt eigið fé, ekki lánsfé. Það er ein af grundvallarforsendum markaðsbúskapar að eigið fé á að tapast fyrst, það er réttnefnt áhættufé og á að vera það.

Ef traustsyfirlýsingar stjórnvalda á erlendu stórbankana taka að streyma frá stjórnvöldum og seðlabönkum er það öruggt hættumerki. Þegar bankar njóta ekki lengur trausts sækjast þeir eftir slíku. Einu sinni „fyrirmyndarbankinn“ Deutsche Bank er löngu byrjaður að sækja sér slíkar traustsyfirlýsingar, enda fullur af ,,rusli”. Stórbankar iðnríkjanna í miðju ESB veittu mikið af ósjálfbærum lánum til jaðarríkjanna, til að greiða fyrir útflutningi á alls kyns varningi, í kjölfar upptöku evrunnar, en vöruðu sig ekki á að verðmætaráðstöfun jaðarríkjanna batnaði ekkert við gjaldmiðlaskiptin.

Seðlabankar veraldarinnar fundu þá ,,lausn” í seinni tíð að gefa hnignandi hagkerfum ,,afréttara”. Hann felst í að kaupa ríkisskuldabréf og borga með lausafé, sem seljandinn svo ráðstafar á markaðnum. Þannig eykst lausafé í umferð og ,,alkóhólistinn” hressist um stund. Allir vita samt að einhvern tíman verður vandanum ekki frestað lengur. Þessi ferill er í raun „verkjastillandi meðferð“ fyrir hagkerfi Vesturlanda, sem eru að missa stöðu og vægi gagnvart Austurlöndum. Stjórnmálamenn vilja ekki færa kjósendum þessi tíðindi, enda sýnir reynslan að slíkum boðberum er refsað.

Enginn getur séð fyrir hvenær traustið brestur. Sem betur fer er 13. október nk. ekki föstudagur.


Auglýsing

Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: