„Það styttist í að mesta peningabóla allra tíma springi með skelfilegum afleiðingum,“ skrifar Jóhannes Björn.
„Á stærsta markaði heimsins í Bandaríkjunum eru hreinlega allar helstu fjárfestingar komnar til skýjanna og í Undraland. Miðað við þjóðarframleiðslu hafa hlutabréf ALDREI verið dýrari. Skuldir sem fólk og fyrirtæki hafa axlað til verðbréfakaupa hafa aldrei verið svakalegri. Skuldabréf — ríkisbréf, fyrirtækjabréf og ruslabréf (junk bonds) — hafa aldrei verið ódýrari í 4000 ára sögu þeirra og vextir af þessum bréfum eru neikvæðir yfir línuna þegar verðbólgan er reiknuð inn í dæmið. Fasteignir eru í sögulegu bóluferli, hafa hækkað um 20% á einu ári og eru dýrari (að raunvirði) en þær voru 2008 áður en markaðurinn sprakk,“ skrifar hann.
„Hvað gerist þegar bólur springa? Þjóðarframleiðsla Bandaríkjanna var rétt undir $15 trilljónum 2008 (kallað billjónir í Evrópu), en fasteignahrunið sogaði $7 trilljónir út úr hagkerfinu og hlutabréfamarkaðurinn lækkaði um aðrar $7 trilljónir. Samkvæmt hefðbundnum hagfræðikenningum hefði verið eðlilegt að láta nokkra banka rúlla og afskrifa einhverjar trilljónir. En sumt ríkasta fólk jarðarinnar hefði tapað stórt og líklega varð það til þess að helstu seðlabankar heimsins byrjuðu að framleiða meira nýtt fjármagn er sæmi eru um í sögunni,“ skrifar Jóhannes.
„Öll peningaframleiðsla, sem er hlutfallslega meiri en nemur aukningu vöru og þjónustu í hagkerfinu, orsakar verðbólgu. Síðan 2008 hefur þessi verðbólga aðallega sýnt sig á hækkandi verðbréfamörkuðum og í dýrari fasteignum, en núna er almenn verðbólga víðast gengin í garð. Þetta er vandamál því gífurlega skuldugir ríkiskassar þola engar vaxtahækkanir, en það er aðeins tímaspursmál hvenær skuldabréfamarkaðir byrja að heimta miklu hærri vexti. Í dag eru raunvextir ríkisbréfa margra landa neikvæðir, sem auðvitað er algjörlega óþolandi ástand í augum þeirra sem kaupa skuldabréf. Margir lífeyrissjóðir sjá fram á tæknileg gjaldþrot vegna fáránlega lítillar ávöxtunar peninga, og þeir hafa verið reknir inn á allt of dýra hlutabréfamarkaði til að reyna að ávaxta pund sitt. Þetta eru hrein spákaupmennska sem getur ekki endað vel.
Michael Burry, sem sá fyrir og græddi gífurlega þegar tæknibólan sprakk árið 2000 og þegar fasteignamarkaðurinn hrundi 2008, hefur undanfarið verið að spá mesta hruni allra tíma. Hér er skemmtileg úttekt á skrifum hans og samanburði sem hann gefur á aðdraganda hrunsins í Þýskalandi 1923 og ástandsins í Bandaríkjunum í dag,“ segir í grein Jóhannesar sem hann birti á Facebook.