Fréttir

Mesta aflaverðmætið í Reykjavík

By Miðjan

June 10, 2014

Atvinnulíf Mestum aflaverðmætum var landað í Reykjavík á síðasta ári, eða fyrir 25,3 milljarða. Næst í röðinni komu Vestmannaeyjar með rúma 16 milljarða og Neskaupsstaður með 14,4 milljarða. Sú höfn þar sem minnstu verðmæti var landað og rekur því lestina er Haukabergsvaðall með aflaverðmæti upp á 54 þúsund krónur. Þarna var landað grásleppu og meðafla hennar.

Hlutur Reykjavíkur hefur farið lítillega minnkandi á undanförnum árum. Til að mynda var hann 16,8% eða rúmir 29 milljarðar árið 2011 en fór niður í 14,9% eða 25,3 milljarða í fyrra. Þetta er samdráttur uppá 3,8 milljarða. Hins vegar jukust aflaverðmætin um rúma 1,8 milljarða á Ísafirði og 3,1 milljarð á Siglufirði.

Þegar horft er til landsvæða var mestum aflaverðmætum landað á Austurlandi eða 23,2% af heildaraflaverðmætunum sem skráð voru í íslenskum höfnum samkvæmt vigtar- og ráðstöfunarskýrslum. Alls voru þetta rúmir 39,3 milljarðar króna. Næst koma hafnirnar á höfuðborgarsvæðinu með rúma 31,4 milljarða króna, 18,6%.