- Advertisement -

Merkar minjar eru í stórhættu

…með fornleifarannsóknum getum við eflt þekkingu þjóðarinnar á okkar dýrmætu menningararfleifð.

Steinunn Þóra Árnadóttir.

„Alþingi ályktar að fela umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra að gera stórátak í skráningu menningarminja, annars vegar minja sem eru í hættu vegna loftslagsbreytinga eða annarrar náttúruvár, svo sem vegna landbrots, og hins vegar menningarminja almennt.“

Steinunn Þóra Árnadóttir VG flutti tillögu sem hún og fleiri þingmenn hafa lagt fram.

„Við sem erum flutningsmenn þessarar tillögu og vonandi fleiri teljum mikilvægt að efla og auka skráningu á fornleifum og menningarminjum og efla alla minjavernd. Þetta er tvíþætt í raun, eins og kemur fram í tillögunni, þ.e. annars vegar merkar minjar sem eru í hættu t.d. vegna loftslagsbreytinga eða náttúruvár eins og landbrots,“ sagði Steinunn Þóra.

Þú gætir haft áhuga á þessum

…mikill fjöldi minja um allt land er í stórhættu vegna sjávarrofs.

„Því miður er staðan sú að mikill fjöldi minja um allt land er í stórhættu vegna sjávarrofs. Það eru minjar um m.a. sjávarútveg og sjósókn Íslendinga frá landnámi allt fram á 20. öld og því er um að ræða gríðarlegt magn af ómetanlegum menningarverðmætum sem eru nær órannsökuð og munu, ef ekki verður gert átak, hverfa í sjóinn vegna ágangs náttúruaflanna, en landbrot er víða mikið og fer vaxandi vegna loftslagsbreytinga. Svo er einnig nauðsynlegt að efla skráningu menningarminja almennt vegna þess að í fornminjum og með fornleifarannsóknum getum við eflt þekkingu þjóðarinnar á okkar dýrmætu menningararfleifð.

Ég tel að í minjavernd felist jafnframt mikil tækifæri sem eru mikilvæg fyrir menningar- og náttúrusögu landsins og ef vel er haldið á hlutum geta svæði með menningarminjum orðið að eftirsóknarverðum áfangastöðum um land allt. Við vitum það sjálf þegar við ferðumst um Ísland eða til annarra landa að til eru svæði sem hafa að geyma sögu og minjar, hvort sem það eru hús, gripir eða eitthvað annað, sem oft laðar okkur að svæðunum,“ sagði Steinunn Þóra Árnadóttir.


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: