María Pétursdóttir skrifar:
Auk þess að vera rödd þeirra sem enga hafa og höllum fæti standa ætla ég í framboð af því að ég get það í augnablikinu.
Kjörnefnd hefur ákveðið að setja mig í oddvitasætið í Kraganum (SV) á lista Sósíalistaflokksins til alþingiskosninga í haust og ég er til þjónustu reiðubúin. Ástæða þess að ég gef kost á mér í þessa baráttu er sú að mér rennur blóðið til skyldunnar sem fyrr að krefjast réttlætis þar sem ójöfnuður og óréttlæti ríkir en við þurfum ekki að rýna í mælingar til að vita að hér á landi sé fátækt skattlögð og fötlun og veikindi með “kostnaðarmeðvitund” eins og meðvitund um skerðingu eða sársauka sé ekki næg.
Framboð mitt fyrir Sósíalistaflokkinn er kannski fyrir sumum eðlilegt framhald þess að starfa í málefnastjórn hans síðustu fjögur ár og vinna að framgangi hans eins og kostur er með það að leiðarljósi að hafa áhrif á umræðuna og hafa þar með áhrif á ákvarðanir sem teknar eru í samfélaginu en hins vegar er það ekki sjálfgefið að ég standi í fæturnar því lífið hefur ekki alltaf baðað mig glimmeri eins og þið vitið sem þekkið mig. Ég hef fengið minn skerf af áföllum og veikindum í gegnum tíðina og því einnig óhjákvæmilega kynnst mörgum hliðum á kerfunum okkar.
Bæði hef ég kynnst heilbrigðiskerfinu alltof vel sem og velferðarkerfinu og ég hef horft upp á vini og félaga fara ferlega illa út úr sínum málum og jafnvel ekki lifað af þegar velferðin eða réttlætið geigar. Þá hef ég fundið áþreifanlega hvernig kerfin okkar hafa undanfarin ár verið að molna að innan með einkavæðingu og útvistunum og hvernig eina prósentið étur upp allan auð á kostnað almennings. Lífeyrisþegum og láglaunafólki er til dæmis gert að lifa við fjárhagsáhyggjur eða fátækt árum og áratugum saman og er jaðarsetningin þar algjör og nær yfir svo ótal marga þætti. Við erum “heppin” ef við eigum stönduga að sem geta hjálpað okkur við að greiða af húsnæði eða bíl og við getum sjaldnast aðstoðað uppkomin börn okkar. Við getum ekki tekið námslán en er gert að greiða af gömlum lánum teknum fyrir örorku eða fötlun auk þess sem ekki er gert ráð fyrir fötluðu fólki á vinnumarkaði þrátt fyrir innleiðingu starfsgetumats. Við eigum helst ekki að gera neitt né eiga neitt.
Þegar Sósíalistaflokkurinn var stofnaður hefði ég hoppað hæð mína í loft upp ef ég hefði getað það því loksins var komið stjórnmálaafl sem ég vissi að ég ætti heima í og snerist ekki um “blandaðan” jöfnuð og áherslur á millistéttina því hvað er of blandað hagkerfi annað en ruglingslegt hugtak yfir ójöfnuð þar sem leyfist að halda uppi þeirri hlið þess sem arðrænir fólk? Í Sósíalistaflokknum hef ég fundið aðra góða félaga með sömu markmið, vonir og væntingar til samfélagsins. Leiðrétting á kjörum lífeyrisþega og réttlæti og réttarbætur þar að lútandi skipa stærstan sess í mínu hjarta auk heilbrigðis, mennta og menningarmála. Þá brenn ég fyrir jafnrétti og sósíalískum femínisma og réttindum hinsegin fólks, flóttamanna og allra jaðarsettra hópa samfélagsins. Við höfum tækifæri til að gera svo mikið betur en framganga okkar í lífinu á ekki að byggjast á því að við séum svo rétt á litin, af réttu kyni, réttu þjóðerni, réttri ætt, “heppin” að eiga efnaða foreldra, “heppin” að halda heilsu, “heppin” að eignast eitthvað eða geta menntað okkur en Þannig er það því miður í dag. Velferð okkar byggist af alltof stóru leyti á “heppni” eða “dugnaði eins og sumir segja en ég segi á móti að það eru ekki allir það “heppnir” að geta verið duglegir.
Auk þess að vera rödd þeirra sem enga hafa og höllum fæti standa ætla ég í framboð af því að ég get það í augnablikinu. Þannig má benda á að þingstarfið er eina starfið sem býður upp á varamann og hálfgerða NPA þjónustu ef svo má segja. En ég mun ekki gera neitt ein heldur með hóp af baráttuglöðu fólki mér við hlið. Við viljum draga völdin til fólksins þar sem þau eiga heima og það mun leiða til aukins jöfnuðar og réttlætis. Við viljum tryggja öllum réttinn til mannsæmandi lífs, öruggs húsnæðis og losa fólk undan nagandi afkomukvíða. Við viljum jöfnuð fyrir alla en ekki bara suma því það er nóg til!