- Advertisement -

Mér er misboðið og ég er reið

Sólveig Anna Jónsdóttir:

„Í dag fór ég ásamt samstarfsfélögum mínum í heimsókn á nokkra kvennavinnustaði, til að fara yfir stöðu samningaviðræðna við hið opinbera og til að heyra hvað félagsmönnum þætti rétt að gera. Við spjölluðum um lífið í fjársveltu kerfi, hvernig það er að þurfa alltaf að hlaupa hraðar og hraðar, hvernig á því stendur að ekki hefur verið bætt fyrir niðurskurðinn sem varð eftir Hrun, hvernig það er að fá fingurinn sendan um hver mánaðamót jafnvel þó að starfið sem þú sinnir sé eitt það mikilvægasta í öllu samfélaginu og hvers vegna það hefur verið látið viðgangast í íslensku samfélagi að fólkið sem sinnir börnunum okkar og gömlu fólki er lægst launaðasta fólkið á íslenskum vinnumarkaði. Hvers vegna það hefur verið látið viðgangast að manneskjurnar sem eru sannarlega algjörir lykilstarfsmenn fá því sem næst ekkert útborgað. Ég talaði við konur sem eru búnar að vinna á leikskóla í næstum þrjá áratugi og fá samt minna en 300.000 krónur í ráðstöfunartekjur. Við vorum sammála um að óbreytt ástand yrði ekki umborið lengur, sammála um að óbreytt verðmætamat yrði ekki lengur þolað.
Þessir fundir voru frábærlega skemmtilegir, mikið hlegið og gríðarleg samstöðu-tilfinning í loftinu, þrátt fyrir að lífsskilyrði, aðbúnaður og laun fólksins sem tilheyrir umönnunarstéttunum séu til því sem næst óbærilegrar skammar fyrir Ísland.

Á meðan við funduðum bárust fréttir af því að Seðlabankinn hefði undanfarin ár boðið og greitt starfsfólki bónusa og styrki til að halda því í starfi m.a. vegna álags og „vegna þeirrar einstöku reynslu sem það hafði safnað“. Ein manneskja sem datt í þennan Seðlabanka-lukkupott fékk til að mynda 18 milljónir í námsstyrk.

Sorrý, en ég fæ bara ekki orða bundist: Hvernig getur fólk haldið að það sé hægt, í fámennu samfélagi, að gera allt sem í þeirra valdi stendur til að ala á stéttaskiptingu og misskiptingu og að það muni ekki hafa afleiðingar? Hvernig dirfist þetta fólk að halda að það geti hagað sér svona og komist endalaust upp með það? Már, fyrrum Seðlabankastjóri, leyfði sér í vetur sem leið, að láta eins og ríflegar launahækkanir til handa láglaunakonum myndu setja allt þjóðfélagið á hliðina! Sorrý en samt ekki: Þvílík spilling og þvílík hræsni í einum manni! Enn og aftur þurfum við að heyra af algjöru hömluleysi þegar kemur að því að verðleggja mikilvægi meðlima efnahagslegra forréttindahópa á sama tíma og við eigum að sætta okkur við að mikilvægasta starfsfólk samfélagsins eigi bara að halda áfram að fokka sér.


Þvílík spilling og þvílík hræsni í einum manni!

Mér er misboðið og ég veit að manneskjurnar sem ég hitti í dag eru sama sinnis. Ég veit nákvæmlega hvernig þeim líður, mér leið svoleiðis í tíu ár og mér líður enn þá þannig. Mér er misboðið og ég er reið en ég ætla samt að gleðjast vegna þess að ég veit að þessi frétt er á endanum ekkert nema enn ein sönnun á því sem við vitum: Það er til nóg af fjármunum í kerfinu. Þeim hefur bara verið leyft að safnast á hendur fárra. Þau sem trúa á og hagnast á slíku óréttlæti láta eins og það sé náttúrulögmál en þau eru löngu búin að gera sig sjálf algjörlega ómarktæk, seljandi hugmyndafræði sem enginn vill lengur sjá eða heyra.

Ef eitthvað fólk í íslensku samfélagi eru lykilstarfsmenn þá er það fólkið sem ég hitti í dag. Og það er löngu tímabært að þessir lykilstarfsmenn fái það sem þeir eiga inni. Yfirstétt hins opinbera skal ekki lengur fá að komast upp með að skammta sjálfri sér ofurlaun og fríðindi og bónusa á meðan hún ríkir yfir brútal arðránskerfi sem byggir á kerfisbundinni fyrirlitningu á kvennastörfum.“


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: