Mennirnir á Markaðnum eru óþreytandi í að sýna okkur dýpt eigin snilligáfu
Hugleysið er orðið helsti samferðalangur stjórnmálafólks og því er ekki hægt annað en að vona að við, fólkið, sjáum loksins samhengi hlutanna.
Sólveig Anna Jónsdóttir skrifar:
Mennirnir á Markaðnum, viðskiptablaði Fréttablaðsins, eru óþreytandi í að sýna okkur dýpt þeirrar snilligáfu sem þeir búa yfir. Hún er að því virðist svo hyldjúp að grunur leikur á því að hún sé í raun botnlaus. Kannski má helst líkja henni við hið margfræga Glápandi hyldýpi? Í dag er í blaðinu, í stuttum en mögnuðum pistli, farið yfir samhengi lífs, dauða og hagkerfisins í mannlegri tilveru. (Smá varúð: Lestur leiðir til Þversagnar-kipps. Þannig að ef þið eruð ekki hrifin af svoleiðis er betra að sleppa því að lesa.) Hér á eftir er endursögn mín og vangaveltur sem vöknuðu við lestur:
Fæst fólk er vísindafólk og getur því ekki metið klínískar afleiðingar sóttvarna. Vísindafólk er gott í klínískum afleiðingum en ekki endilega í öðrum afleiðingum. Því er ekki sanngjarnt að pína vísindafólk til að svara öllum spurningum. Stjórnmálafólk ber ábyrgðina á því að leggja mat á aðgerðir og afleiðingar þeirra en hefur hingað til aðeins leikið á klínískar nótur þess lyklaborðs sem samtíminn er. Þetta hafa þau gert til að „kaupa tíma“. Til hvers eru þau í þessum stórtæku tímakaupum? Jú, þau bíða eftir því að vísindafólkið vísindi handa okkur bóluefni. En hversu lengi þarf að bíða eftir því? Það veit enginn. Og því er það svo að tíminn sem keyptur er verður of dýr. Þeim mun meiri óvissa á tíma-markaði, þeim mun dýrari er varan. Ó að frumkvöðlum skuli ekki enn hafa tekist að upp-finna tíma-framleiðslu-vél.
Vegna alls þessa er það er skylda allra að sjá og skynja veruleika þeirrar efnislegu tilveru sem mannfólk býr í. En fyrst og fremst er það skylda okkar vegna þess að stjórnmál eru ekki með hina mikilvægu samhengis-sýn og því gagnslaus í þessu mikilvæga verkefni.
Nú gerist það í pistlinum sem er áhugavert fyrir okkur sem lesum og gerist því miður alltof sjaldan og er því þakkarvert: Í heilanum verður skyndilega hinn svokallaði Þversagnar-kippur. Hann er skemmtilegur fyrir þroskaða lesendur en getur valdið óþroskuðum dálítilli vanlíðan; væg sjóveiki eða tilfinningin sem kemur þegar þú stelst til að reykja með vinkonum þínum og kappið verður meira en blessuð forsjáin. Þegar ég var yngri gat Þversagnar-kippurinn gert mig töluvert lasna en það sama á við hann og margt annað sem gerir þig lasna fyrst: Venst alveg ótrúlega vel og á það til að verða jafnvel eftirsóknarvert. Kippurinn gerir það að verkum að við lesum okkur til baka og finnum hvað það er sem stangast á við það sem við lásum rétt í þessu: „Það er verkefni stjórnmálamanna að leggja heildstætt mat á hvaða aðgerðir lágmarka skaðann“ og svo „Það er skylda hvers og eins að reyna að sjá hlutina í samhengi, því stjórnmálin skortir slíka sýn“. (Jájá, takiði bara annan smók, fyrst þið eruð byrjaðar hvort sem er.)
Fólk skal bera ábyrgð á því að uppfræðast um samfélagið sem það býr í og sjá hvernig allt tengist saman (í gegnum súperstrúktúr og grunn?). En mikið er það áhugavert (já og jafnvel gaman) að sjá það fullyrt að stjórnmál geti ekki séð samhengið í hinum efnislega heimi sem við mannfólkið dveljum í og að það sé verkefni stjórnmálafólks að leggja hin heildstæðu möt. Ég vona að ritaður verði framhaldspistill þar sem dýpra er kafað í þessar tæru fullyrðingar-lindir, því þarna hlýtur að vera svo ótrúlega margt ósagt.
Svo er komið að lokum. Þá er farið á bólakaf og ekki er laust við að lesandinn skynji systur Glápandi hyldýpisins, Ofurmanneskjuna, svamlandi þokkafulla einhvers staðar í djúpinu:
Margt fólk er hrætt við að deyja. Það er órökrétt; dauðinn er hvorki meira né minna en óumflýjanlegur. Aumt og vesælt nútímafólk er orðið svo ruglað (af lífsins lystisemdum?) að það skilur ekki lengur krónólógíu eigin lífs sem ávallt endar með eigin dauða. Slík er úrkynjunin orðin. Dauðinn er falinn og er því óhugsandi fyrr en við drepumst sjálf. Það er af sem áður var þegar bæði ungir og gamlir dóu. Hverjir eru það sem sjá hag sinn í því að fela dauðann fyrir dauðlegu fólki? Það kemur ekki fram en grunur hlýtur að falla á stjórnmálafólk sem hefur það verkefni að skilja og útskýra samhengi hlutanna en er svo bara vitlausast af öllu fólki. Upp er því komin sú staða að fólk vill af mikilli óábyrgð gera fátt annað en að lifa og stjórnmálafólk í vanhæfni sinni reynir að gera kjósendum það kleyft með algjörlega óábyrgum tíma-kaupum og sóttvörnum. Enginn virðist hafa hugrekkið til að segja hið sanna: Þið munið öll, þið munið öll, þið munið öll deyja! Hugleysið er orðið helsti samferðalangur stjórnmálafólks og því er ekki hægt annað en að vona að við, fólkið, sjáum loksins samhengi hlutanna, hættum að vera í afneitun gagnvart eigin dauðleika og krefjumst einskis minna en að tíma-kaupum verði hætt, landamæri verði opnuð og sóttvarnir samstundis lagðar af, enda hafa þær ekkert annað hlutverk en að halda okkur á lífi! Og hvers konar aumingjar erum við eiginlega orðin þegar að lífs-þráin er okkar sterkasta mótivasjón? Þau sem á undan okkur fóru dóu hægri-vinstri og við einfaldlega svertum minningu þeirra með græðgi okkar og heimtufrekju.
Nútímamanneskjan er svo langt leidd í sjálfsniðurlægingunni að ekki einu sinni heimsfaraldur skelfilegrar plágu getur vakið upp Dauða-drifið. Er nema von að menn finni sig knúna til að setja penna á blað?
Ég viðurkenni að ég er óttalegur aumingi sem vill lifa. Og akkúrat núna er ég að vona að ég lifi allavega nógu lengi til að lesa framhaldspistilinn um Samhengið. Ef hann er jafn djúpvitur og þessi sem ég var að lesa gæti það jafnvel gerst að ég hætti að vera aumingi og skrái mig í Flokk hinna hugrökku íslensku hjarðónæmismanna en slagorð þeirra hlýtur að verða „Kom þú sæll, þá þú vilt!“. Eins gott að gæta að persónulegum sóttvörnum þangað til!