Stjórnmál Ragnheiður Elín Árnadóttir iðnaðarráðherra hefur svarað Svandísi Svavarsdóttur hvers vegna ákveðið var að fella niður fjárframlag ráðuneytisins til menningarsamninganna.
„Í vetur var sú ákvörðun tekin að fela sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra forræði vaxtarsamninga og sóknaráætlana. Þegar sú ákvörðun lá fyrir þótti eðlilegt að sá ráðherra færi jafnframt með forræði sem iðnaðarráðherra hafði áður haft með menntamálaráðherra hvað varðar aðkomu að gerð menningarsamninga. Á fundi ríkisstjórnarinnar 11. apríl sl. var samþykkt tillaga um að leggja það til við Alþingi að veitt yrði aukið fé til menningarsamninga. Verði tillagan samþykkt verður hægt að halda upp svipaðri starfsemi á vettvangi samninganna og undanfarin ár,“ segir í svari iðnaðarráðherra.
Svandís vildi líka vita í hvaða verkefni þeir fjármunir verði nýttir sem áður voru framlag ráðuneytisins til menningarsamninga landshlutanna og hvaða reglum verður beitt við úthlutun fjárins?
„Ekki hefur verið tekin ákvörðun um hvernig öllum fjármununum verður varið. Ráðherra hefur þegar gert samning við Hagstofu Íslands um gerð ferðaþjónustureikninga en mikil vöntun hefur verið á tölfræði er varðar efnahagsleg áhrif ferðaþjónustunnar og samanburður við önnur lönd hefur verið erfiður. Markmiðið með samningnum er að tryggja að hægt verði að meta efnahagsleg áhrif ferðaþjónustunnar fyrir íslenskt atvinnulíf þannig að samanburður fáist á vægi hennar milli landa. Þá hefur ráðherra gert samning við Slysavarnarfélagið Landsbjörgu vegna verkefnisins Safe Travel þar sem áherslan er á öryggi ferðamanna. Þá eru í bígerð verkefni er varða frekari rannsóknir í ferðþjónustu, stefnumótun í málaflokknum, og öryggismál auk fjölda annarra verkefna sem nauðsynlegt er að vinna.
Ferðaþjónustan hefur vaxið mjög sem atvinnugrein undanfarin ár. Mikill vöxtur í ferðaþjónustu bar að miklu leyti upp hagvöxtinn á síðasta ári og er ferðaþjónustan nú orðin sú atvinnugrein sem skapar þjóðarbúinu mestar gjaldeyristekjur. Þessi mikli vöxtur hefur því haft jákvæð áhrif á íslenskan efnahag en miklum vexti fylgja einnig áskoranir og kallar á mikla forgangsröðun þegar kemur að því að ákvarða hvernig skuli ráðstafa því fjármagni sem ríkið ætlar til ferðaþjónustumála.“