Mengun, kynlíf, dramatískir útgerðarmenn og siðferði borgarstjórnar eru í brennidepli að þessu sinni.
Ekki nóg með það að Ólafur sparigrís er með eigur sínar í erlendum sjóðum!
Hitt dramatíska málið er fléttan hans Ólafs varðandi söluna á Búnaðarbankanum. Það er sorglegt að sjá hvernig stjórnvöld og almenningur var hafður að fíflum í þessu máli
Ég er að reyna að temja mér almenna bjartsýni þrátt fyrir að sjá glasið hálf tómt í sumum málefnum. En batnandi fólki er best að lifa og við verðum að reyna að sjá ljósu punktana í öllu í kringum okkur. Ég sá það í vikunni að arsenik gæti lekið úr kísilverksmiðjunni í Reykjanesbæ. Í stað þess að missa mig ákvað ég að líta jákvæðum augum á þetta þar sem ég á fjölskyldu og vini í arsenikblandaða andrúmsloftinu á Suðurnesjum, ákvað ég að skella mér á aliexpress og pantaði bara stóra sendingu af gasgrímum. Það er ekki slæmt að vera búinn að kaupa jólagjafirnar í mars, ég hef bara aldrei verið svona tímanlega í þessu. Hálf fulla glasið er að hjálpa til. En öllu grínu slepptu þá er kannski best að slökkva ljósin og loka búllunni.
Það má með sanni segja að við íslendingar getum verið þverir og lítið fyrir að hugsa stundum út fyrir rammann. Á dögunum var gerð könnun hvort ganga ætti til samninga við Klínikið um framkvæmd aðgerða með það að markmiði að vinna á biðlistunum löngu. Þjóðin skiptist í helming í afstöðu sinni. Að 50% þjóðarinnar vilji að sársjúkir kveljist svo mánuðum skiptir bara til að ekki sé leitað til einkastofu er mjög sérstakt. Það sem er meira sérstakt í þessu er að ef þú ert á löngum biðlista getur þú farið fram á það að íslenska ríkið kosti þig út fyrir landsteinana til aðgerðar. Þá er þetta svo skemmtilegt að íslenska ríkið getur keypt fyrir þig aðgerð í Svíþjóð, oftar en ekki á einkastofum þannig að sænskir einkaaðilar fá kostnaðinn í vasann sem er auðvitað miklu betra en að íslenskur einkaaðili í heilbrigðisþjónustu fái aurinn í sinn vasa. Sjáið hvað þetta er brenglað? Til að toppa ástandið þá getur sænski aðilinn verið upptekinn og selt Klínikinni á Íslandi aðgerðina. Hvað gerist þá? Jú Íslenska ríkið hefur greitt svía til að framkvæma aðgerðina, sem greiðir íslendingi til að gera aðgerðina, en þá sleppur íslenska ríkið við kostnaðinn af hóteli og uppihaldi. Bíddu við, væri þá ekki skásta í stöðunni að gera samning og framkvæma aðgerðirnar hérlendis og halda fjármagni ríkisins í íslensku efnahagskerfi? Jú að sjálfsögðu. En nei við viljum það ekki, mokum í okkur verkjalyfjum vælum yfir heilsuleysinu og hvað heilbrigðiskerfið sé slæmt, neitum að einkaaðili eigi fyrir saltinu í grautinn og strunsum svo til tannlækna og augnlækna á meðan og blótum einkarekstri í heilbrigðiskerfinu.
Hreint ótrúlegt að níu mánuðum eftirlandsleik er sett met í mænudeifingum. Já að sigra England í fótbolta kallaði fram greddustig sem sjaldan hefur sést áður. Spurning um að Veðurstofan skoði hvort einhver skjálftavirkni hafi verið á jarðskjálftamælum þessa umræddu nótt. Ég skil núna af hverju ég er á lausu, ég þarf að fara að mæta á landsleiki eða hanga á Ölver um helgar. Ég vissi ekki að fótbolti færi svona í klofið á manni. Nú er að fjárfesta í miða á næsta landsleik og treysta á Guð og lukkuna og hver veit, maður verður kannski genginn út fyrir jól.
Þær eru skemmtilegar umræðurnar um kaupmáttinn. Fáir sem maður ræðir við finna fyrir kaupmættinum sem mælist í himnalagi og hefur sjaldan verið eins stöðugur. Ég hef verið að benda fólki á að mælikvarðar sýna stöðuna glögglega og varla hægt að eiga við dómarann hvað þetta varðar. En ég tók upp á því í vikunni að hugsa málið. Almenningur er að endurnýja bílaflotann, þekki nokkra sem láta ekki nægja að fara eina utanlandsferð á árinu skuldir heimilanna eru á hraðri niðurleið sem segir okkur að við erum miklu minna á kreditkortafylleríi eða á yfirdrætti. Til að toppa þetta sá ég myndband þar sem sjálf diskó dívan Páll Óskar var fenginn til að opna umslag sem innihélt upplýsingar um hvort kynið væri í óléttuhófi og fólk er farið að borga skemmtikröftum til að skemmta í skírnarveislum – ef þetta er ekki óbragðið af 2007 þá veit ég ekki hvað. Og hverjum ætlum við um að kenna í næstu niðursveiflu hagkerfisins? Ríkisstjórninni? Við erum bara án efa miklir meistarar þegar kemur að neysludjammi með fjármagnið okkar og það er allt á eigin ábyrgð.
Donald Trump forseti Bandaríkjana fékk mig til að flissa í vikunni á sama tíma og ég varð hálf kvíðinn. Hann felldi úr gildi lög varðandi kolaframleiðslu og kolum sem orkugjafa. Það er auðvitað algjör afturför í umhverfismálum og kjánalegt. Ímyndum okkur að Bessastaðabóndinn stigi fram og vildi burt með ljósaperur og inn með olíulampana. En það sem fékk mig til að flissa er hvernig dettur honum í hug að framsýn nútímafyrirtæki í Bandaríkjunum vilji nýta kol sem orkugjafa? Þarf Trumpinn ekki að tóna sig niður, rífa fram dagatalið og átta sig á að hann er vofa liðinna tíma, iðnbyltingin er liðin.
Dramatíkin hefur verið ráðandi í vikunni. Útgerðir hóta flótta með fiskvinnslu úr landi vegna styrkrar stöðu krónunnar. Það má með sanni segja að málið sé snúið, það er ekki eins og útgerðirnar framleiði lyf eða skópör. Þær eru að vinna og græða á auðlind þjóðarinnar, þar er stór munur á. Þrátt fyrir að um einkafyrirtæki sé að ræða þá var fiskstjórnunarkerfið sett á á sínum tíma til að leita hagræðingar í greininni, með hag lands og þjóðar að leiðarljósi. Það má í raun líkja þessu við að Landsvirkjun myndi selja allt rafmagn til Evrópu í gegnum sæstreng og við sætum eftir í myrkrinu, bara af því að verðið er hærra í Evrópu. Hvort sem að útgerðum líkar það betur eða ei, þá hafa þeir skyldu gagnvart íslenskri þjóð, þetta er okkar fiskur.
Hitt dramatíska málið er fléttan hans Ólafs varðandi söluna á Búnaðarbankanum. Það er sorglegt að sjá hvernig stjórnvöld og almenningur var hafður að fíflum í þessu máli. Það versta við þetta mál er að kona Ólafs vakti athygli á því á dögunum að Ólafur væri dæmur glæpamaður þrátt fyrir sakleysi sitt. Hún vildi fund með forseta Íslands sem hafnaði beiðni hennar. Ætli frúin sé ennþá haldin óraunhæfri meðvirkni og haldi ennþá að hún sé gift dýrlingi? Hvað um það ,við verðum að læra af þessu máli og vanda til verka við sölu bankana. Það liggur fyrir að þeir einu sem eiga fé til að fjárfesta í bönkunum eru þeir sem áður áttu þá. Þeir eiga ennþá álnir á fjarlægum slóðum.
Ekki nóg með það að Ólafur sparigrís, er með eigur sínar í erlendum sjóðum og liggur á því eins og ormur á gulli, heldur ætlar borgin að bæta við fjármagni sem fer án efa beint úr landi líka. Almenningur tók á sig höggið fyrir íslenska fjármálakerfið og munu skattgreiðendur greiða þessum manni enn meira. Borgarfulltrúar eiga að rifta samningi um uppbyggingu íbúða við félag Ólafs. Ég ræddi við borgarfulltrúa sem tjáði mér að borgarfulltrúar í minnihluta borgarstjórnar var ekki greint frá eignaraðild Ólafs í tilteknu félagi þegar málið var afgreitt í borgarstjórn. Dagur hélt því leyndu eða leit svo á að ekki væri þörf að taka það fram. Síðar sáu borgarfulltrúar í fjölmiðlum, Dag borgarstjóra undirrita samninginn með Ólafi. Ég er ekki að halda því fram að samningurinn sé ólöglegur eða brot á sveitarstjórnarlögum, nei en að rifta samningnum er siðferðislega rétt. Ólafur hefur hlotið dóm og eftir skýrsluna góðu sést glögglega að viðskipti við þennan ágæta mann eru stórhættulegt. Það er ekki hægt að bjóða almenningi að skattfé þeirra renni í vasa hans, hann hefur fengið nóg frá íslensku þjóðinni.
Þeir eru svo miklir snillingar á Akranesi. HB Grandi hótaði að loka botnfiskverkun á staðnum og segja upp 93 starfsmönnum. Bæjarstjóri og bæjarfulltrúar voru ekki lengi að grípa tækifærið og lofa breytingum á hafnarsvæðinu. Þá spyr ég hvernig getur bætt aðstaða á höfninni bætt rekstarskilyrði vinnslunnar sem voru rökin við að leggja hana niður? Og seinni spurningin er hvernig getur Akranes lofað framkvæmdum Faxaflóahafna upp á 1,5 milljarða til að bjarga þessum störfum og við reykvíkingar borgum brúsann ? Ég neita að skattfé mitt fari í hafnarmannvirki á Akranesi. Hvet Akranes að skoða nýsköpunartækifæri á svæðinu og skapa ný störf og ef kostnaðurinn er einhver, þá greiði bæjarfélagið sjálft reikninginn.
Fjöldi samfélagsnetmiðla keyra reglulega á greinum um kynlíf. Hver hefur ekki rekist reglulega á greinar með fyrirsögnum í þess átt, „tíu leiðir til að fullnægja konunni“ og framvegis. Ein gríngrein þessu tengt var birt í vikunni. Sú grein var um 13 hluti sem á ekki að gera í kynlífi. Ég segi gríngrein þar sem talað var um að sleppa því að svara símtali frá mömmu þinni, ekki kreista bólu á bólfélaganum og að nota heilan ananas sem leikfang upp í óæðri endann. Ég vona svo innilega að enginn sé með heilan ananas sem hjálpartæki í ástarlífinu. Ég veit allavega að ég yrði fljótur að leggja á flótta ef einhver rifi upp ananas í öllu sínu veldi upp úr náttborðsskúffunni En svona greinar fá lesningu. Það er með ólíkingum. Ef þú ert í vanda að fullnægja maka þínum í rúminu þá þarf eitthvað að endurskoða allt ástandið í heild sinni. Ef þú nærð ekki að læra á þarfir maka þíns til margra ára þá ertu vart hæf/ur til að keyra bíl. Ef gagnkvæmur skilningur á þörfum makans liggur ekki fyrir eftir fyrstu vikurnar, þar sem mestum tíma er eytt í svefnherberginu þá eruð þið einfaldlega ekki að ná saman. Þá væri nær að lesa greinar á við „tíu leiðir til að slíta sambandi.“
Góða helgi