Fréttir

Mengun: Aðrir heimshlutar vandamálið

By Miðjan

December 01, 2015

Alþingi „Við tökum oft þessa umræðu eins og við séum jafnvel nálægt rót vandans í loftlagsmálum þegar staðreyndin er sú að það sem er að gerast í öðrum heimshlutum er meginvandamálið,“ sagði Bjarni Benediktsson, fjármálaráðherra á Alþingi, þegar hann svaraði spurningu Árna Páls Árnasonar um markmið okkar í loftslagsmálum.

„Mér hefur almennt þótt skorta töluvert mikið upp á það að við Íslendingar staðsettum okkur rétt í umræðu um umhverfismál. Við tökum oft þessa umræðu eins og við séum jafnvel nálægt rót vandans í loftlagsmálum þegar staðreyndin er sú að það sem er að gerast í öðrum heimshlutum er meginvandamálið. Það sem er að gerast í Kína á hverju einasta ári. Nú eru Kínverjar til dæmis að stórauka álframleiðslu sína, meira eða minna allt saman með því að reisa ný og kraftmeiri kolaraforkuver. Þegar þetta heildarsamhengi hlutanna er tekið með í umræðuna um loftslagsmál er svo margt sem við Íslendingar getum slegið okkur á brjóst fyrir, sérstaklega í hinu alþjóðlega samhengi. Síðan þegar kemur að því að taka umræðuna hér heima fyrir um það hvernig við viljum gera enn betur þá getum við sett okkur markmið um að ná enn frekara forskoti, en við eigum ekki að taka umræðu um loftslagsmál í alþjóðlegu samhengi á þeirri forsendu að við séum í stórskuld við umheiminn. Það finnst mér einfaldlega ekki rétt. Við þurfum að halda miklu hærra á lofti kröfunni um að aðrir gangi fram með svipuðum hætti og við Íslendingar höfum gert.“