„Afkoma borgarinnar er umtalsvert lakari en gert var ráð fyrir í áætlun. Munar hér heilum 2.228 milljónum. Taprekstur er staðreynd og skuldir vaxa hratt,“ bókuðu borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins.
„Athygli vekur að þetta er þriggja mánaða uppgjör á þeim tíma sem áhrif COVID-19 voru ekki komin fram. Veltufé frá rekstri er hrunið í 2,9% sem er langt undir viðmiðunarmörkum borgarinnar sjálfrar sem er 9%. Reykjavíkurborg er ekki vel búin til að takast á við áföll enda var skuldasöfnun gífurleg í góðærinu. Skuldir hækka um fjóra milljarða á þremur mánuðum. Skuldahlutfall hækkar núna hratt. Meirihlutinn hefur núna starfað í tvö ár og hefur þverbrotið eigin sáttmála með því að borga ekki niður skuldir í góðærinu eins og meirihlutasáttmálin kvað skýrt á um. Viðreisn lofaði viðreisn í fjármálum Reykjavíkurborgar og lækkun skulda. Það klikkaði,“ segir í bókuninni.