- Advertisement -

Meirihlutinn ofnotar hugtakið; trúnaður

Ef maður blaðrar því sem aðrir segja á lokuðum fundum getur maður lent í fangelsi.

„Á fundi forsætisnefndar var á dagskrá að beiðni meirihlutafulltrúa umræða um trúnað á fundum. Ef maður blaðrar því sem aðrir segja á lokuðum fundum getur maður lent í fangelsi. Mér hefur þótt mjög skrýtið hvernig meirihlutinn notar „trúnað“. Oft er þetta svona hentugleikatrúnaður og gögn og kynningar eru stimplaðar „trúnaður“ ef í þeim er eitthvað sem lætur meirihlutann líta illa út,“ segir Kolbrún Baldursdóttir, borgarfulltrúi Flokks fólksins.

„Ég reyndi að lýsa þessu í eftirfarandi bókun,“ segir hún Hér er bókun Kolbrúnar:

Fulltrúi Flokks fólksins fagnar því að meirihlutinn skuli setja á dagskrá umræðu um trúnað. Fulltrúi Flokks fólksins hefur einnig lagt fram mál um „trúnað“ og vill nota tækifærið hér til að rifja þau upp. Samkvæmt lögum getur sá sem leggur fram mál ákveðið að málið sé trúnaður. Eftir því er tekið að ef mál/gögn/kynningar birta neikvæða mynd af meirihlutanum eru þau gjarnan stimplað sem trúnaður þótt ekkert í málinu krefjist þess beinlínis. Meðal þess sem stundum er haldið frá fólki eru tillögur að deiliskipulagi, kynningar og útfærslu á vegalagningu. Tillaga Flokks fólksins um mat á hvaða mál flokkast sem trúnaðarmál var nýlega vísað frá. Meirihlutanum  þykir hins vegar sjálfsagt að opinbera nöfn þeirra sem senda inn kvartanir sem birt eru fullum fetum í fundargerð og hafa margir mátt þola bágt fyrir. Í stuttu máli er það mat fulltrúa Flokks fólksins að hugtakið „trúnaður“ sé  misnotað af meirihlutanum. Flokkur fólksins hefur lagt til að helst öllum fundum sé streymt. Hægt væri að loka fyrir streymi ef verið er að fjalla um persónugreinanleg eða önnur viðkvæm mál. Verði meginreglan að streyma fundum vandar fólk frekar orð sín. Valdníðsla sem oft hefur ríkt á fundum myndi þá að sama skapa örugglega minnka.“


Auglýsing

Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: