Gunnar Smári skrifar:
Borgin rekur láglaunastefnu svo fólk getur ekki framfleytt sér og fjölskyldum sínum af dagvinnulaunum. Borgin rekur samgöngukerfi sem er þannig að fólk er lengi í og úr vinnu. Borgin bregst við þessu með því að stytta vistunartíma barna á leikskólum, svo þeir foreldrar sem standa verst, hafa lægstu tekjur og þurfa að vinna mest, einkum konur og einstæðir foreldrar, munu eiga erfiðara með að komast af.
Þessi ákvörðun er tekin innan úr ótrúlegu þekkingarleysi á lífi borgarbúa. Í fréttinni segir Skúli Helgason, borgarfulltrúi meirihlutans: „Það hefur verið áberandi að vistunartíminn hefur verið að lengjast og lengjast nokkuð hressilega á síðustu misserum og árum. Fyrir örfáum árum var algengt að börnin væru 4-6 tíma á leikskóla en í dag eru margir að nýta sér tímann í botn, þessa níu tíma.“
Skúli vísar til þess tíma að konur voru rétt stignar inn á vinnumarkaðinn og konur í sambúð voru í hálfsdagsvinnu á móti heimilisstörfum. Meirihlutinn í borginni hefur misst vitið. Hann er farinn að móta hugmyndir sínar um þróun borgarinnar á minnkandi atvinnuþátttöku kvenna, á að einstæðir foreldrar séu ekki til eða ættu alla vega ekki að fá neinn stuðning frá samfélaginu og að kominn sé tími til að brjóta niður leikskólakerfið, það eina sem R-listinn, og þeir flokkar sem stóðu að honum, geta státað sig af í borgarmálum.