Fréttir

Höfnuðu að endurskoða aðalskipulag

By Miðjan

July 11, 2014

Ekki voru allir á eitt sáttir þegar meirihlutinn í borgarráði hafnaði að láta fara fram endurskoðun á aðalskipulagi Reykjavíkur 2010-2030.

Það voru fulltrúar meirihlutans, Bjartrar framtíðar, Samfylkingarinnar, Pírata og Vinstri grænna sem þannig greiddu atkvæði.

Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins og Framsóknar og flugvallarvina voru annarra skoðunar. Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins lögðui fram eftirfarandi bókun: „Aðalskipulagið er grunnurinn að allri borgarsýn næstu áratuga og því í anda lýðræðis og góðrar samvinnu við borgarbúa að fara í sjálfsagða skoðun á þeim atriðum sem hafa sætt hvað mestri gagnrýni til að sjá hvort að það séu einhver einstaka atriði sem þurfa nánari skýringa, skerpinga eða endurskoðunar. Í aðalskipulagi er lagður grundvöllur fyrir gerð deiliskipulags varðandi landnotkun, takmarkanir á landnotkun, samgöngu- og þjónustukerfi og byggðamynstur, þ.m.t. þéttleika byggðar, og því væri eðlilegra að bíða eftir að niðurstöður faglegs vinnuhóps liggi fyrir áður en tekin er ákvörðun um hvort að þörf sé á að endurskoða einstaka atriði aðalskipulagsins. Gagnrýni á veigamikil skipulagsatriði í aðalskipulaginu sem munu hafa mikil áhrif á framtíðarþróun borgarinnar hefur komið fram, til að mynda að ramma þurfi betur inn friðhelgunarsvæði útivistarsvæða í Laugardalnum og í Elliðaárdalnum. Því er ekki nægilegt að boðaður vinnuhópur eigi eingöngu að líta til atriða sem koma til á seinni stigum skipulagsvinnunnar sem mun ekki geta breytt aðalskipulaginu til að það sé eins skýr leiðarvísir borgarþróunarinnar eins og það á að vera. Það er þó fagnaðarefni að slíkur hópur sé stofnaður til að gæta þó að því að öll framtíðarskipulagsvinna á seinni stigum skipulagsins sé eins best úr garði gerð og í sem víðtækastri sátt við borgarbúa.“