Meirihlutinn er á móti eigin stefnu
- segir í bókun Kolbrúnar Baldursdóttir, eftir að tillaga hennar um „notendasamráð“ var felld. Víðtækt samráð er nú þegar, segir meirihlutinn.
„Það er nú fokið í flest skjól þegar meirihlutinn getur ekki samþykkt tillögu Flokks fólksins að Reykjavíkurborg hafi notendasamráð í öllum sínum verkefnum og ákvörðunum sem varða hag og hagsmuni einstakra hópa. Látið er að því liggja að notendasamráð sé í fullri virkni enda nefnt 9 sinnum í sáttmála meirihlutans. Meirihlutinn getur ekki samþykkt sína eigin stefnu. Borgarfulltrúi Flokks fólksins hélt í barnaskap sínum að þessari tillögu, ef einhverri, myndi vera fagnað af meirihlutanum enda mikilvægt að skerpa á svo mikilvægum hlut sem notendasamráð er,“ segir í bókun Kolbrúnar Baldursdóttur í borgarráði.
Meirihlutinn hafði þá fellt tillögu hennar um notendasamráð.
„Nú þegar stendur Reykjavíkurborg fyrir víðtæku samráði við íbúa og notendur þjónustu hennar. Þar má nefna nýlega Menntastefnu sem skrifuð var í miklu samráði, bæði við íbúa, kennara og annað fagfólk, og á netinu í gegnum Betri Reykjavík og nýlegan samráðsfund um breytingar á samráðsvettvangi fyrir fólk með fötlun sem var mjög vel sóttur og árangursríkur,“ segir meðal annars í rökum meirihlutans, þegar tillagan var felld.
„Það er skrítin pólítík að tala um samráð og setja orð um það í „meirihlutasáttmála“ en hafa svo ekki kjark til að samþykkja í borgarstjórn að samráð verði viðhaft eins og gert er ráð fyrir í þessari tillögu,“ segir aftur á móti í bókun fulltrúa Sjálfstæðisflokksins.