Una Jónsdóttir, hagfræðingur hjá Íbúðalánasjóði, sagði á fundi í dag og mbl.is, greinir frá að aðeins sjö prósent tekjulægsta fólksins notfærir sér séreignasparnaðinn til kaupa á íbúðum, þ.e. fólkið sem þarf mest á stuðningi að halda.
„Það er nefnilega eitt sem einkennir þetta tiltekna stuðningskerfi hins opinbera og það er að þetta er ekki eins og önnur tilfærslukerfi þar sem stuðningurinn er meiri þar sem tekjurnar eru lægri. Hérna er stuðningurinn, þ.e. þessi skattfrjálsa ráðstöfun á eigin sparnaði, hlutfallslega meiri eftir því sem tekjur eru hærri. Við sjáum t.d. að til þess að geta fullnýtt úrræðið, 500.000 kr. á ári, þá þurfa tekjur að vera hátt í 700.000 krónur á mánuði,“ segir Una í samtali við mbl.is.
„Húsnæðisöryggi kemur ekki fyrr en að fólk hefur tök á að kaupa og þetta er eitthvað sem að þarf kannski að breyta,“ segir Una. Það sé athyglisvert einkum í ljósi markmiða laga um húsnæðismál en þar kemur fram að húsnæðisstuðningi hins opinbera sé ætlað að stuðla að því að landsmenn hafi raunverulegt val um búsetuform og búi við öryggi í húsnæðismálum, í samræmi við þarfir hvers og eins. „En niðurstaða sem þessi gefur til kynna að það búa ekki allir við jafnt húsnæðisöryggi,“ segir Una við mbl.is.