Guðjón Brjánsson, þingmaður Samfylkingarinnar, skrifar grein í Moggann um snjóflóðin og ógnina af náttúrunni. Lok greinarinnar eru þess virði að lesa:
„Það verða líklega ekki náttúruöflin sem knésetja byggðirnar og hrekja íbúana á brott. Miklu líklegra er að mannanna verk ráði úrslitum, íhlutun löggjafans, forgangsröðun gæða í þágu sérhagsmunahópa, fálæti og hirðuleysi stjórnvalda. Það eru sterk og lítt sýnileg öfl sem með klækjum hafa leitt margar rótgrónar sjávarbyggðir í gapastokkinn. Þróttmiklar byggðir í sögulegu samhengi eru nú í stöðu beiningamanns gagnvart fáum, öflugum auðhringum sem Ísland í seinni tíð hefur alið af sér.
Það er stór hópur stjórnmálamanna sem styður óbreytta stefnu og það mun leiða fleiri byggðarlög í þrot, valda ósköpum og vaxandi mismunun. Fylgismenn þeirra sem hins vegar vilja sanngjarna og eðlilega nýtingu sameiginlegrar auðlindar í hafinu eru margir á Alþingi. Þeir hafa sem leiðarljós markmið sjálfbærni og hagsmuni byggðarlaga. Þeir eru því miður enn of fáir en þeim mun fjölga. Það gerist í nýjum kosningum til Alþingis og er ekki tímabært að fara að undirbúa þær?“