- Advertisement -

Meira um Borgarnesklúðrið

…og svo þætti mér best að hvorki Karl né Bergþór kæmust að vegna þátttöku þeirra í fylleríinu fræga.

„Fyrir tíu árum komst Hæstiréttur að þeirri niðurstöðu að kosningar til stjórnlagaþings væru ólöglegar.  Sl. sunnudag klúðraði yfirkjörstjórn í Norðvesturkjördæmi málum hjá sér.  Ætli sé eitthvað líkt með þeim atriðum sem Hæstiréttur taldi ábótavant og líklega var ábótavant í Borgarnesi?“

Þetta skrifar Marinó G. Njálsson á Facebooksíðu sína:

„Nokkur atriði, sem Hæstiréttur setti út á, eiga ekki við núna.  Þetta eru:

Þú gætir haft áhuga á þessum
  •  – númeraðir kjörseðlar
  •  – ekki mátti brjóta kjörseðlana saman og
  •  – opnir kjörklefar

Önnur atriði geta beint eða óbeint hafa átt við:

  •  – kjörkassar voru opnir:  hér má leggja að jöfnuði að kjörkassar voru ekki innsiglaðir að lokinni talningu á sunnudagsmorgni og því hefði mátt eiga við innihald þeirra, á móti kemur að atkvæðaseðlar voru í bunkum í kössunum, án þess að kjörstjórn hafi skýrt út hvað var átt við með því;
  •  – að talning hafi ekki farið fram fyrir opnum dyrum:  Hæstiréttur var fastur á því formsatriði að talning ætti að fara fram þannig að allir gætu fylgst með.  Endurtalningin í Borgarnesi uppfyllti ekki það skilyrði og nær að nota myndlíkinguna, að hún hafi farið fram í skjóli myrkurs.
  •  – frambjóðendur höfðu ekki fulltrúa:  Vissulega höfðu flokkarnir sína umboðsmenn, en samkvæmt lögum þá á ekki að hefja talningu fyrr en umboðsmenn lista eru mættir og sé umboðsmaður einhvers lista ekki til staðar, þá skal yfirkjörstjórn „kveðja valinkunna menn úr sömu stjórnmálasamtökum, ef unnt er, til að gæta réttar af hendi listans“, eins og segir í 98. gr. kosningalaga nr. 24/2000.  Og svo kemur rúsínan í pylsuendanum í 99. gr.  Fyrst í 1.mgr.: „Í viðurvist þessara manna opnar svo yfirkjörstjórn [eða umdæmiskjörstjórn] atkvæðasendingarnar úr hverri kjördeild eftir að þeim hefur verið gefinn kostur á að sannfærast um að öll innsigli séu ósködduð.“  Og síðan í 2. mgr.: „Kjörseðlar skulu síðan teknir úr ílátinu, að viðstöddum umboðsmönnum lista, flokkaðir eftir listabókstöfum sem við er merkt á hverjum seðli og taldir undir stjórn yfirkjörstjórnar

En það er fleira sem bendir til að lögum hafi ekki verið fylgt við talningu og meðhöndlun kjörgagna sl. sunnudag.

Samkvæmt 103. gr. kosningalaga skal meðhöndla ógilda seðla á sérstakan hátt.  Þeim skal haldið til hliðar frá öðrum atkvæðum, enda þarf yfirkjörstjórn og umboðsmenn að samþykkja að atkvæði sé ógilt.  Jafnframt skal „[b]óka […] í gerðabók hve margir kjörseðlar eru ógildir og ástæður þess.“  Miðað við þetta er ekkert rými fyrir mistök í talningu ógildra atkvæðaseðla.  Það á að standa í gerðabók hve margir þeir eru.  Ómögulegt er því að skilja og ekki hægt að skrifa á mannleg mistök, að ógild atkvæði voru talin 24 að morgni sunnudags, en 35 síðdegis.  Þessa seðla átti að meðhöndla sérstaklega og skrá í gerðabók.  Báru menn ekki saman töluna í gerðabókinni og það sem kom út úr talningunni eða var ekki lögunum fylgt og gerðabókarskráningunni sleppt?

Oddviti yfirkjörstjórnar hefur haldið því fram að inngangur að sal hafi verið læstur og hann vaktaður með myndavél.  Þá er hann líklega að vísa til aðalinngangs.  Af myndum sem birst hafa innan úr salnum má hins vegar sjá minnst þrjár hliðardyr og hugsanlega eru þær fleiri.  Voru þessar dyr læstar og vaktaðar?  Hann hefur líka fullyrt að innsigli séu bara límband sem auðvelt er að taka af, en gleymdi alveg að nefna að ekki er hægt að taka það af án þess að það skilji eftir ummerki.  Annað hvort hefur hann ekki áttað sig á þessu eða hann segir viljandi ekki alla söguna.

Ég hef ekki starfað í kjördeild frá því í bæjarstjórnarkosningum á Seltjarnarnesi á 8. áratugnum.  Get því ekki sagt, að ég hafi reynslu af slíku starfi.  Var þó virkur innan HSÍ á 9. áratugnum, sat öll ársþing sambandsins í mörg ár og varð vitni að ýmsu misjöfnu sem þar gerðist.  Það var oftast látið gott heita, en stöku sinnum þurftum við Kjartan heitinn Steinbeck að hlaupa upp í pontu til að koma í veg fyrir að alvarleg mistök yrðu gerð.

Mér sýnist sem það hafi vantað svona varðhunda í Borgarnesi sl. sunnudag.  Aðila sem tryggðu að yfirkjörstjórn færi að lögum en æddi ekki yfir allt og alla á skítugum skónum.  Lög eru ekki valkvæðar leiðbeiningar um hvað eigi að gera.  Þeim ber að fylgja hversu tímafrekt og leiðinlegt það nú er.

Mín niðurstaða úr öllu þessu, er að ekki er hægt að taka „endurtalningu“ atkvæða í Borgarnesi gilda og landskjörstjórn eigi að úthluta þingsætum í samræmi við óumdeilda niðurstöðu talningar á sunnudagsmorgni.  Eftir það var meðhöndlun og varsla kjörgagna þannig, að það jafnast við að þeim hefi verið spillt og því ekki nothæf fyrir frekari meðhöndlun. 

Mér er síðan nokk sama hvort Guðmundur eða Guðbrandur sitja fyrir Viðreisn á þingi, Rósa Björk eða Jóhann Páll fyrir Samfylkinguna, Hólmfríður eða Orri fyrir VG, en viðurkenni að ég vil frekar sjá Lenyu Rún í stað Gísla Rafns (sorry, Gísli, þú ert frábær, en Lenya Rún væri yngsti þingmaður Íslandssögunnar) og svo þætti mér best að hvorki Karl né Bergþór kæmust að vegna þátttöku þeirra í fylleríinu fræga.“


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: