„Það á setja meira úr ríkissjóði í einkarekna fjölmiðla heldur en til þessa málefnis. Og þótt við myndum bæta við 180 milljónum, sem er þörf á þar inn, þá er það samt minna en fer til einkarekinna fjölmiðla í eigu auðmanna, að stærstum hluta sem munu fá þetta,“ sagði Guðmundur Ingi Kristinsson,, þingflokksformaður Flokks fólksins, á Alþingi.
Þar er hann að ræða um veik börn. Börn sem eru á löngu biðlistum eftir læknishjálp. Börn sem bíða eftir að komast að hjá Greiningar- og ráðgjafarstöð ríkisins.
Barnamálaráðherrann, Ásmundur Einar Daðason, hefur greinilega orðið undir í ríkisstjórninni. Hefur ekki náð eyru Bjarna Benediktssonar fjármálaráðherra. Ásmundur Einar gat af veikum mætti lagt áttatíu milljónir til málsins. Sem er nánast eing og dropi í hafið.
„Jú, það er verið að setja 80 milljónir í biðlistana en setjum það í samhengi við þær 180 milljónir sem voru settar í mat fyrir minkana,“ sagði Guðmundur Ingi.
Barnamálaráðherrann hélt áfram að verjast: „Er hægt að gera meira í málefnum barna? Já. Er sá sem hér stendur sammála því að það ætti að gera meira í málefnum barna? Já. En er þessi ríkisstjórn að gera lítið í málefnum barna? Nei.“
Helga Vala Helgadóttir sagði: „En að setja í eitt skipti 80 milljónir í biðlistavanda þegar 600 börn bíða bara á þessum stað, 1.200 börn um allt land bíða eftir greiningu eða meðferð við geðrænum og sálrænum vanda, 80 milljónir í eitt skipti inn í þennan málaflokk — ég er voða hrædd um að það sé ekki nóg. Og af því að við erum að tala hér um tölur, háttvirtur þingmaður Guðmundur Ingi Kristinsson bar þetta saman við minkafóður, þá langar mig að bera 80 milljónir saman við 150 milljónir sem Landsréttarmálið kostaði okkur, Landsréttarklúðrið.
(Fyrir þau sem telja þá er þetta í þriðja sinn í dag þar sem Bjarni Benediktsson kemur við sögu hér á Miðjunni.)