Gunnar Smári skrifar:
Á það hefur verið bent að stemmingin í kringum fimmtugsafmæli Bjarna Benediktssonar, formanns Sjálfstæðisflokksins, sé önnur en þegar formaður flokksins náði síðast þessum áfanga, í janúar 1998 þegar Davíð Oddsson varð fimmtugur. Þá efndi Sjálfstæðisflokksfólk til einskonar þjóðhátíðar, gaf út bækur, hélt fundi og reyndi að skilja lukku sína með ýmsum öðrum hætti, að hafa fengið slíkan formann. Munurinn kann að liggja í fylgi flokksins. Þetta er niðurstaða könnunar DV sem gerð var fáum dögum eftir afmæli Davíðs, Sjálfstæðisflokkurinn með rétt rúmlega helming af fylginu. Það hefði dugað flokknum fyrir 33 þingmönnum, hreinum meirihluta. Í síðustu könnunum hefur Sjálfstæðisflokkur Bjarna verið með um og undir 20% fylgi og allt niður í 13 þingmenn.
Sjálfstæðisflokkurinn er ekki það sem áður var. Miðlæg staða hans í dag er ekki eitthvað sem hann byggir á almennum stuðningi út í samfélaginu, heldur fyrst og síðast eitthvað sem forystufólk í öðrum flokkum færir forystu Sjálfstæðisflokksins á silfurfati. Og þar með þeim öflum sem halda forystu Sjálfstæðisflokksins uppi.