- Advertisement -

Meira en þúsund börn eru á biðlistum eftir þjónustu í heilbrigðiskerfinu

– ekki hárnákvæmt segir heilbrigðisráðherra.

„Um og yfir 1.000 börn eru á biðlista eftir þjónustu í heilbrigðiskerfinu, hundruð börn á biðlista til að komast á annan 100 barna biðlista hjá Greiningar- og ráðgjafarstöð ríkisins sem sinnir börnum með alvarleg veikindi. Það eru allt að tveggja til þriggja ára bið hjá börnum með alvarleg veikindi og nær 10 prósent ungmenna á Íslandi hafa gert tilraun til sjálfsvígs. Geðlæknir sagði að há sjálfsvígstíðni barna væri m.a. langtímaafleiðing sparnaðar í kerfinu,“ sagði Guðmundur Ingi Kristinsson á Alþingi.

„Við vitum að biðlistar eru að lengjast og lengjast í heilbrigðiskerfinu og það er óþolandi að ár eftir ár styttast ekki biðlistar barna heldur lengjast. Eitt barn á biðlista er einu barni of mikið, en um og yfir 1.000 börn á bið ár eftir ár á ekki að líðast og er allt of alvarlegt mál. Börn á bið er okkur til háborinnar skammar, hvað þá börn sem eru komin fram á bjargbrúnina, sem eru að falla í, með hvaða afleiðingum? Í boði ríkisstjórnarinnar. Það er verið að setja hundruð milljóna í einkarekna fjölmiðla og minka en það virðist ekki vera til fjármagn til útrýma biðlistum barna. Er þarna ekki kolrangt gefið, hæstv. heilbrigðisráðherra? Ríkisstjórnin hefur staðið sig ansi illa þegar kemur að því að bjarga börnum á bið og þess vegna er fjöldi þeirra að verða fyrir varanlegu tjóni á biðlista eftir öðru og þriðja stigs úrræðum. Þau og fjölskyldur þeirra eiga ekki að vera í þessum ömurlegu aðstæðum ár eftir ár, veik börn og fjölskyldur þeirra sem þurfa svo nauðsynlega á hjálp að halda en eru að gefast upp andlega og líkamlega vegna álags. Þarna er um fjármagns- og þá einnig ákveðinn mönnunarvanda í kerfinu að ræða. Og hvað ætlar hæstvirtur heilbrigðisráðherra að gera í því?“

Svandísi Svavarsdóttur heilbrigðisráðherra var ekki skemmt:

Þú gætir haft áhuga á þessum

Við erum í sókn…

„Í fyrsta lagi er það ekki hárnákvæmt hjá háttvirtum þingmanni að biðlistar séu bara að lengjast. Víða er verið að vinna á þeim. Á dögunum, fyrir einhverjum vikum, var fjallað um það sem háttvirtur þingmaður er að tala um, sem er bið eftir geðþjónustu fyrir börn, í fjölmiðlum. Greining á stöðunni, samkvæmt fréttinni, bendir til þess að annars vegar sé um að ræða það sem háttvirtur þingmaður bendir á, sem er að geðheilbrigðismál hafi ekki fengið næga athygli undanfarin ár og því sé um uppsafnaðan vanda að ræða. En hins vegar er líka nefnt í fréttinni að um sé að ræða jákvæða vitundarvakningu í samfélaginu um mikilvægi góðrar geðheilsu. Fólk veit þannig að það á rétt á góðri geðheilsu og vill sækja sér hana. Það er mikilvægt,“ sagði Svandís og reyndi að verjast staðreyndum. Og sagði svo:

„Í minni ráðherratíð hafa geðheilbrigðismál verið í meiri sókn en nokkru sinni fyrr. Geðheilbrigðisþjónustan hefur verið efld á öllum þjónustustigum, t.d. höfum við komið á laggirnar þverfaglegri geðheilbrigðisþjónustu í heilsugæslu um allt land til að tryggja geðheilsuteymi óháð búsetu. Við erum í sókn og við ætlum að halda áfram þessari uppbyggingu. Samkvæmt nýjustu tillögum sem nú eru til umfjöllunar í þinginu, og koma fram í nýrri fjáraukalagatillögu, gerum við ráð fyrir að setja upp ný geðheilsuteymi í öllum heilbrigðisumdæmum fyrir börn, þ.e. þar sem fyrst og fremst er horft á þjónustu fyrir börn, og ekki síst vegna þeirrar áherslu sem háttvirtur þingmaður er hér að kalla eftir. Geðheilbrigðismál eru mikilvæg en þau eru sennilega mikilvægust þar sem börn og ungmenni eru annars vegar.“


Auglýsing

Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: