Fréttir

Meingallað frumvarp um hatursorðræðu

By Miðjan

April 14, 2019

Sema Erla Serdar var meðal gesta í Silfrinu fyrr í dag. Í kvöld skrifaði hún á Facebook:

„Ég var með stutt innlegg í Silfri Egils í dag um hatursorðræðu og fagna því að hafa fengið tækifæri til þess að tjá mig aðeins um þær breytingar sem fyrirhugaðar eru á almennum hegningarlögum sem snúa að hatursorðræðu. Hatursorðræða er ofbeldi og það er mikið áhyggjuefni að hún fer ört vaxandi. Það er svo fráleitt að íslensk stjórnvöld ætli að þrengja lögin þannig að þolendur hatursorðræðu eigi erfiðara með að fá vernd fyrir henni og auðvelda ofbeldismönnum að stunda hana. Þetta ætla íslensk stjórnvöld að gera á sama tíma og hatursorðræða hefur aldrei verið sýnilegri og hatursglæpum fjölgar með hverjum deginum um allan heim og flest ríki eru að grípa til aðgerða til þess að sporna gegn hatursorðræðu en ekki rýmka fyrir henni.

Það sem ég vildi sagt hafa en kom ekki að í þættinum er að þetta frumvarp um þrengingu á skilgreiningunni á hatursorðræðu er meingallað og það endurspeglast lítill skilningur á því hvað hatursorðræða er í frumvarpinu. Það er kannski ekki að furða þar sem ekkert samráð virðist hafa verið við vinnslu frumvarpsins við minnihlutahópa í íslensku samfélagi, sem eru þolendur hatursorðræðu, og þau samtök sem á hverjum degi gera allt sem þau geta til þess að standa vörð um mannréttindi minnihlutahópa og vernda þau gegn mismunun. Alþingi getur hreinlega ekki samþykkt slíkt lagafrumvarp. Með því væri Alþingi að gera lítið úr alvarleika hatursorðræðu og afleiðingum hennar fyrir þolendur slíks ofbeldis!“