Stjórnmál

Megum ekki sökkva á sama plan og Bjarni

By Miðjan

November 15, 2022

„Ef hæstvirtur fjármálaráðherra hyggst standa við stóru orðin og reyna að setja hér ÍL-sjóð í þrot með lögum fyrir jól þá kallar það auðvitað á vandaða meðferð á Alþingi,“ sagði Jóhann Páll Jóhannsson Samfylkingu.

„Þá verður fjárlaganefnd að hafa ráðrúm til að láta kanna lögmæti þess og hvort þar sé verið að skerða eignarréttindi með ólögmætum hætti. Þetta segir sig sjálft og mér finnst háttvirtur formaður fjárlaganefndar hengja sig hér í formsatriði. Auðvitað getur nefndin tekið upp þetta mál að eigin frumkvæði og kallað eftir lögfræðiáliti. Ég veit að hæstvirtur fjármála- og efnahagsráðherra hirðir ekki um að afla upplýsinga og sannreyna upplýsingar þegar hann sýslar með hagsmuni ríkissjóðs, þetta sjáum við mjög skýrt í skýrslu Ríkisendurskoðunar um Íslandsbankamálið, en við hér á Alþingi megum ekki sökkva niður á sama plan og hæstvirtur fjármálaráðherra í svona risavöxnu máli. Við verðum að gera betur og tryggja að farið sé að lögum og hafa vaðið fyrir neðan okkur.“