- Advertisement -

Meginstraumsstjórnmál Evrópu að leysast upp

FLOKKARNIR LEYSAST UPP, EVRÓPUSAMBANDIÐ LEYSIST UPP, RÍKIN LEYSAST UPP

Íslenski fjórflokkurinn hefur tapað miklu fylgi.

Fréttaskýring eftir Gunnar Smára:  

Þú gætir haft áhuga á þessum

Spánski Lýðflokkurinn missti helming af fylgi sínu um helgina, illa farinn af spillingarmálum og með stefnu og ásýnd sem fellur illa að breyttri veröld eftir Hrun. Og þótt hinn stofnanaflokkur spænskra stjórnmála, Sósíalistaflokkurinn, hafi unnið ágæta sigur, er fylgi hans þó nokkuð undir fylgi flokksins áratugina fyrir Hrun.

Í kosningunum 1993 fengu þessir flokkar um ¾ hluta atkvæða á Spáni, eða 74%. Um helgina fengu þeir samanlagt 45%. Áður snérust spönsk stjórnmál um þessa tvo flokka, en nú er myndin flóknari. Eftir Hrun klofnuðu þeir báðir; Podemos, vinstrisinnuð fjöldahreyfing varð til vinstra megin við Sósíalistaflokkinn, og Ciudadanos varð til sem borgaralegt stjórnmálaafl. Í kosningunum nú flutti últra-hægri fylgihluti Lýðflokksins sig yfir á Vox, en Lýðflokkurinn var á sínum tíma stofnaður af samverkamönnum Franco og fasistastjórnar hans og hefur ætíð haft í sér létt-fasíska taug. En spönsk stjórnmál hafa ekki aðeins gengið í gegnum svona uppbrot, svipað og Íslendingar þekkja frá eftirhrunsárunum (Borgarahreyfingin, Píratar, Besti flokkurinn, Björt framtíð, Viðreisn, Miðflokkurinn, Flokkur fólksins) heldur eru sjálfstæðishreyfingar og héraðsflokkar í sókn í svo til öllum fylkjum Spánar. Spænsk stjórnmál eru því að leysast upp á fleirum en einum ás; hugmyndakerfi valdaflokkanna frá síðustu áratugum tuttugustu aldar virka ekki eftir Hrun, minnkandi traust á stjórnmálum grefur undan valdi og virðingu fyrir miðstjórnarvaldinu og kjósendur leita fyrir að einhverju nýju; bara einhverju nýju og öðru en gömlu stofnanaflokkunum.


Brexit er að éta upp gömlu stofnanaflokkanna, afhjúpar getuleysi þeirra til að mynda samstöðu utan um stór mál.

Þetta er sami þráður og einkennir stjórnmál allra Evrópulanda, ekki síst gömlu nýlenduveldanna sem mynda kjarna Evrópusambandsins. Bretland er eitt þeirra, þótt það hafi ætíð skilgreint sig á jaðri Evrópusambandsins. Nýjustu kannanir sýna sameiginlegt fylgi Íhalds- og Verkamannaflokksins 57%. Eftir kosningarnar 1992 var sameiginlegt fylgi þessara flokka 76% og þótti þá nokkuð lítið. Brexit er að éta upp gömlu stofnanaflokkanna, afhjúpar getuleysi þeirra til að mynda samstöðu utan um stór mál. Eins og á Spáni hafa stjórnmála nýfrjálshyggjuáranna grafið undan trausti á miðstjórnarvaldi ríkisins og ýtt undir sjálfstæðisbaráttu einstakra ríkja, einkum Skotlands. Styrkur Skoska þjóðarflokksins veldur því að það hefur nánast verið ómögulegt fyrir Verkamannaflokkinn að vinna aftur meirihluta þingmanna. En það er ekki fyrr en á allra síðustu árum og í raun á síðustu vikum og mánuðum sem við sjáum viðlíka uppbrot flokkakerfisins og sjá hefur mátt í öðrum Evrópulöndum, en einmenningskjördæmin í Bretlandi hafa unnið gegn slíku uppbroti. En frá áramótum hafa orðið til tveir flokkar sem mælast með fylgi í könnunum; annars vegar Change UK sem er einskonar Viðreisn/Björt framtíð, sem fær ekkert sérstakt fylgi, og svo Brexit-flokkur Nigel Farage, sem allt stefnir í að muni fá betri kosningu til Evrópuþingsins en báðir stofnanaflokkanna. Það á eftir að koma í ljós hvort einmenningskjördæmin muni verja gömlu flokkanna, en hætt er við að þótt þeim tækist að ná meirihluta með aðeins rétt rúmlega 30% fylgi þá gæti það aldrei haldið til lengdar; að svo lítill hluti kjósenda fái í reynd öll völd.

Frönsk stjórnmál eru í upplausn, ofan á upplausninni flýtur veikur forseti sem er einn margra stjórnmálamanna sem hafa hlotið góða kosningu í Evrópu á undanförnum árum fyrir að tilheyra ekki gamla valdinu.

Bresk stjórnmál hafa verið stöðugri en stjórnmálin á meginlandinu. 1993 fengu stofnanaflokkarnir í Frakklandi, hægri flokkarnir tveir (Gaullistar og Repúblikanar) og vinstri flokkarnir tveir (sósíalistar og kommúnistar) samanlagt 91% atkvæða í seinni umferð þingkosninganna. Í síðustu kosningum fengu þessir flokkar, og/eða skýrir arftakar þeirra, aðeins 36% atkvæða í seinni umferðinni. Í síðustu forsetakosningum var kosið á milli frambjóðanda últra-hægrisins og borgaralegra nýsköpunarstjórnmála a la Viðreisn/Björt framtíð. Þeir flokkar sem mótuðu Frakkland eftirstríðsáranna eru að gufa upp. Í Frakklandi er augljósara en viðast annars staðar hvernig vantraust grefur undan stofnanaflokkunum (eða þeir undan traustinu) og hvernig það vantraust smitast yfir á allar stofnanir samfélagsins; gulvestungar beina spjótum sínum allt eins að meginstraumsfjölmiðlum, lögreglunni og öðrum örmum valdsins eins og gömlu flokkunum. Frönsk stjórnmál eru í upplausn, ofan á upplausninni flýtur veikur forseti sem er einn margra stjórnmálamanna sem hafa hlotið góða kosningu í Evrópu á undanförnum árum fyrir að tilheyra ekki gamla valdinu, en sem ráða náttúrlega ekki við neitt þegar á hólminn er komið enda er vandi þessara ríkja djúpstæðari en svo að nó sé að hylma hann með nýju andliti og ferskari rödd.

Ítalía er skrefi á undan Frakklandi, ef Frakkland er að leysast upp hefur Ítalía þegar gert það. Í kosningunum 1992 fengu Kristilegir demókratar, sósíalistar og kommúnistar, burðarvirki ítalskra stjórnmála á eftirstríðsárunum samanlagt 59% atkvæða en allir þessir flokkar eru nú týndir og tröllum gefnir. Ef við beitum pólitískri ættfræði til að finna arftaka þeirra getum við sagt að þeir hafi í dag um 36% fylgi í könnunum. Meginásar ítalskra stjórnmála eru í dag tveir popúlískir flokkar með sterkar efasemdir um Evrópusambandið; Norðurbandalagið, sem er últra hægri með útlendingaandúð, og Fimm stjörnuhreyfingin sem er Evrópuskeptískur popúlistaflokkur. Það er erfitt að flokka þessa flokka með íslenskum stjórnmálaflokkum, en benda má á að á Evrópuþinginu er Norðurbandalagið í grúbbu með Ukip í Bretlandi en Fimm stjörnuhreyfingin með Brexit-flokki Farage. Samanlagt njóta þessir flokka samkvæmt könnunum um 55% fylgis (á meðan Ukip og Brexit-flokkarnir eru með um 18% í Bretlandi). Ítölsk stjórnmál eru því algjörlega á röngunni; það er ekki bara að gömlu hægri flokkarnir séu komnir út á jaðarinn heldur má segja að vinstrið sé horfið, sósíalistar og kommúnistar eru nánast áhrifalausir í ítölskum stjórnmálum.

Meginásar ítalskra stjórnmála eru í dag tveir popúlískir flokkar með sterkar efasemdir um Evrópusambandið.

Í Grikklandi tóku sósíaldemókratar og hægri flokkurinn Nýtt lýðræði við af herforingjastjórnum og urðu sameiginlega burðarás grískra stjórnmála. Í kosningum 1990 fengu þessir flokkar 86% atkvæða. Í könnunum nú njóta þeir (og arftaki PASOK, sósíaldemókratanna) um 45% fylgis.

Í Hollandi voru burðarásar stjórnmálanna kristilegir demókratar til hægri, frjálslyndur flokkur á miðjunni og sósíaldemókratar til vinstri. Samanlagt fengu þessir flokkar 82% atkvæða í kosningunum 1989. Í könnunum í dag njóta þessir flokkar 51% fylgis.

Og þótt þýsku stofnanaflokkarnir séu varðir með kosningakerfinu, þó ekki eins mikið og í Bretlandi; þá á sama þróun sér stað þar. Kristilegir demókrataflokkarnir og sósíaldemókratar fengu 81% atkvæða í kosningunum 1990 en mælast nú með 46% fylgi í könnunum, staða sem fólk hefði átt bágt með að trúa við hrun múrsins, fall Sovétríkjanna og sameiningu Þýskalands. Eins og þið sjáið hef ég miðað við þau tímamót hér; hver staðan var á stofnanaflokkum hvers lands um og upp úr 1989. Í öllum löndum Evrópusambandsins hafa þeir flokkar sem mótuðu stjórnmál álfunnar á eftirstríðsárunum hrakist í vörn og víða út á jaðar stjórnmálasenunnar.

Það má líka segja að hrun stofnanaflokkana og minnkandi traust á stjórnmálum í Evrópu sé afleiðing nýfrjálshyggjutímans þegar völd voru flutt frá lýðræðiskjörnum vettvangi út á markaðinn, frá vettvangi þar sem hver kjósandi hefur eitt atkvæði út á vettvang þar sem hver króna hefur eitt atkvæði; þegar gríðarleg völd voru flutt frá stjórnmálum til fyrirtækja og samfélagsumræðan var að mörgu leyti af-pólitíkseruð; því haldið fram það væri enginn annar valkostur við nýfrjálshyggjuna. Við Hrunið kom í ljós að loforð nýfrjálshyggjunnar um að á endanum myndu allir öðlast betri lífskjör stóðs ekki; aðeins hin ríku græddu. Á eftirhrunsárunum kom síðan í ljós að valdaafsal stjórnmálanna komu í veg fyrir að stjórnmálin gætu brugðist við til að vernda hagsmuni almennings; ríkin voru meira og minna rekin á sjálfstýringu stillt á hagsmuni fyrirtækja- og fjármagnseigenda. Og í raun skipti engu hvaða flokkar voru við völd; vinstri flokkar sem áttu uppruna sinn í verkalýðshreyfingunni gættu engu betur hagsmuna almennings; þeir höfðu gert nýfrjálshyggjuna að grunni sinnar efnahagsstefnu.

Í kosningunum 1991 fékk fjórflokkurinn á Íslandi 87% atkvæða en mælist nú með 62% fylgi í könnunum, ef við teljum með arftaka vinstri flokka síðustu aldar; næstum 3 af 10 kjósendum hafa yfirgefið fjórflokkinn.

Sósíaldemókratar voru fyrstu fórnarlömb eftirhrunsáranna, kjósendur refsuðu þeim harðlega í hverju landinu á fætur öðru. En kosningaúrslitin á Spáni, vandi breska Íhaldsflokksins, upplausn hægri flokka á Ítalíu og Frakklandi, minnkandi fylgi kristilegra demókrata í Þýskalandi o.s.frv. sýna að vantraustið grefur ekkert síður undan stofnanaflokkum til hægri

Í kosningunum 1991 fékk fjórflokkurinn á Íslandi 87% atkvæða en mælist nú með 62% fylgi í könnunum, ef við teljum með arftaka vinstri flokka síðustu aldar; næstum 3 af 10 kjósendum hafa yfirgefið fjórflokkinn. Í Svíþjóð voru sósíaldemókratar og Moderaterna ásinn í stjórnmálunum; samanlagt fylgi þeirra var 57% 1990 en mælist nú 43% í Danmörku fengu sósíaldemókratar og Íhaldsflokkurinn 53% í kosningunum 1990 en mælist nú 33%. Uppstokkunin stjórnmálanna og minnkandi vægi stofnanaflokkanna nær því til Norðurlanda þótt við höfum ekki enn séð jafn dramatískt uppgjör og víða á meginlandinu.

Þetta er staðan í Evrópu. Þeir flokkar sem lögðu línurnar í stjórnmálum eftirstríðsáranna og byggðu upp Evrópusambandið hafa eða eru við það að missa völd í ríkjunum. Og það er ekki bara að Evrópusambandið muni óhjákvæmilega taka breytingum vegna þessa heldur hefur Evrópusambandið flýtt fyrir þessum breytingum; það er táknmynd valdaafsals hins lýðræðislega vettvangs og í mörgum löndum enn frekara tákn svika stjórnmálastéttarinnar við almenning en stofnanaflokkarnir sem byggðu sambandið upp; gagnrýnt, eins og þeir, fyrir að vera spillt, fjarlægt og ganga ætíð erinda hinn ríku og valdamiklu

Ég valdi þetta sjónarhorn vegna þess að stöðugleiki eftirstríðsárastjórnmálanna sem tryggði nokkurn frið um upplausn nýlenduveldanna og uppbyggingu Evrópusambandsins er nú horfinn.

Ég byrjaði að skoða gömlu nýlenduveldin, sem byggðu upp Evrópusambandið þegar þau misstu nýlendur sínar og stöðu á fjarlægum mörkuðum. Þetta er kjarni Evrópusambandsins; nýlenduveldin, heimsveldin og flotaveldin: Bretland, Frakkland, Spánn, Holland, Þýskaland, sögulega ættum við að nefna Portúgal líka. Önnur lönd eru aukaleikarar í Evrópusambandinu. Ég valdi þetta sjónarhorn vegna þess að stöðugleiki eftirstríðsárastjórnmálanna sem tryggði nokkurn frið um upplausn nýlenduveldanna og uppbyggingu Evrópusambandsins er nú horfinn. Og við það er stjórnmálakerfi þessara landa að leysast upp og þar með er ljóst að Evrópusambandið mun taka miklum breytingum á næstum árum og áratugum. Evrópuskeptískir flokkar munu enn styrkja stöðu sína á Evrópuþinginu í vor og stjórnvöld í hverju landi fyrir sig munu standa æ fastar gegn tilskipunum Evrópusambandsins og vinna gegn stefnu þess. Það er helst að sambandið njóti stuðnings meðal þjóða sem vilja kljúfa sig út úr nýlenduveldunum gömlu; meðal Skota í Bretlandi, Katalóna á Spáni o.s.frv. Það er eins og nýlenduveldin, sem eru ekki í grunninn þjóðríki, hvað svo sem haldið er fram; þoli í raun ekki þessa lausn við vanda þeirra þegar nýlendurnar hurfu. Brussel gerir Madrid að óþarfa frá sjónarhóli Barcelona og London óþarfi í huga skoska þingsins í Holyrood. Bretland og Spánn eru ríkisheildir sem haldast saman vegna sameiginlegra ytri hagsmuna. Þegar þeir hagsmunir eru skilgreindir á gerólíkan máta má búast við að þessi ríki leysist upp. Og í reynd á það sama við um Ítalíu og líka Frakkland og Þýskaland.

Það má því vera að við séum ekki aðeins að horfa upp á upplausn stofnanastjórnmála í Evrópu heldur líka upplausn Evrópusambandsins og ekki síður gömlu nýlenduveldin. Það er meginsaga evrópskra stjórnmála í dag. Þeir stjórnmálaflokkar sem láta sem þessi saga sé ekki í gangi eru náttúrlega ekki í sambandi, eins og við sjáum og heyrum ágætlega á Íslandi þessi misserin.


Auglýsing

Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: