Fréttir

Meðan fátækir bíða fær Pósturinn sitt

By Miðjan

December 05, 2018

Þorsteinn Sæmundsson: „Við sjáum þetta líka í rekstri RÚV ohf. Þangað á að hella 500 milljónum núna, skýringarlítið.“

„Ríkisstjórn Katrínar Jakobsdóttur á ekki 1.100 milljónir fyrir fátækasta fólkið í landinu en hún á 1.500 milljónir til að hella í gjaldþrota ohf. sem vitað hefur verið mjög lengi að stefndi í gjaldþrot út af slæmum rekstri. Allt frá árinu 2011 var varað við að svona væri komið. En á meðan fátækasta fólk á Íslandi þarf enn um hríð að bíða eftir réttlæti af hálfu þessarar ríkisstjórnar finna menn 1.500 milljónir sem á að hella, við 3. umræðu fjárlaga, í Íslandspóst ohf. án nokkurrar athugunar eða nokkurrar kröfu um að gerð verði úttekt á þessum rekstri. Það er engin krafa um það, það á bara að afhenda þessar 1.500 milljónir úr ríkissjóði.“

Þetta sagði Þorsteinn Sæmundsson á Alþingi í dag.

„Þetta er kannski dæmi um það hvernig þessi ohf.-rekstur, sem stofnað var til fyrir nokkrum árum, hefur gjörsamlega snúist í höndunum á mönnum. Þarna er kippt út fyrir sviga stórum rekstrarþáttum í eigu ríkisins — jú, með stjórnum yfir sér en án nokkurrar aðkomu kjörinna fulltrúa með atkvæði landsmanna á bak við sig. Við sjáum þetta líka í rekstri RÚV ohf. Þangað á að hella 500 milljónum núna, skýringarlítið.“

Þorsteinn hélt áfram:

„Þetta er svo galið, herra forseti. Og á meðan þessu fer kemur fram Félagi atvinnurekenda og sakar Íslandspóst, það sama fyrirtæki og við ætlum núna að fara að samþykkja að styrkja um 1.500 milljónir, um brot gegn sátt sem gerð var í febrúar í fyrra.

Ég verð að segja, herra forseti, að það veldur mér miklum áhyggjum að við séum hér að taka ákvörðun eins og þessa gagnrýnislaust og án þess að nokkur krafa sé gerð um að rekstur þessa fyrirtækis sé tekinn til einhverjar gaumgæfilegrar athugunar eins og blasir við að þurfi að gera. En á meðan bíður fátækasta fólkið á Íslandi eftir réttlæti í boði ríkisstjórnar Katrínar Jakobsdóttur.“