„Hún er alveg dýrleg þessi prósentu- og meðaltalshagfræðin en nú virðist það vera orðin þjóðaríþrótt sérhagsmunaafla að telja almenningi trú um að lágtekjufólk hafi hækkað mest,“ er mat Vilhjálms Birgissonar.
„Ég vil byrja að að upplýsa að dagvinnutaxtar verkafólks á hinum almenna vinnumarkaði eru frá 266 þúsundum króna upp í 301 þúsund en langflestir taka laun á töxtum sem eru á bilinu 275 til 285 þúsund krónur fyrir fulla dagvinnu eða hartnær 80% verkafólks,“ skrifar Vilhjálmur.
„Tölum um krónur og aura þegar við tölum um hækkanir launafólks og hættum að blekkja með því að nota prósentur. Bara til að sýna fram ruglið í kringum prósentur þá hefur lægsti launataxti verkafólks hækkað á síðustu 20 árum um 200 þúsund krónur og takið eftir þessi hækkun spannar 20 ár.
Til að setja þetta í samhengi við hækkun á þingfarakaupinu þá hækkaði það á einu bretti um 350 þúsund krónur eða 150 þúsundum meira en lægsti taxti verkafólks hefur hækkað um á 20 ára tímabili.
Enn og aftur hættum að blekkja almenning með prósentum enda verslar enginn með prósentum eða greiðir húsleigu með prósentum.“