„Með upp í kok af endalausum hótunum“
Ragnar Þór Ingólfsson vara Seðlabanka, SA og stjórnvöld við. „...munum við svara með aðgerðum og hörku sem ekki hafa sést áður á íslenskum vinnumarkaði.“
Ragnar Þór Ingólfsson skrifar: Seðlabankinn, Samtök atvinnulífsins og stjórnvöld fá hér með aðvörun!
Ef ekki verður látið af gegndarlausu vaxtaokri á íslenska alþýðu og endalausum hótunum um að hækka vexti og verðlag eða fækka störfum, verði kröfum verkalýðshreyfingarinnar mætt um mannsæmandi lífskjör, munum við svara með aðgerðum og hörku sem ekki hafa sést áður á íslenskum vinnumarkaði.
Ég verð að segja fyrir mig persónulega að ég er gjörsamlega búinn að fá upp í kok af endalausum hótunum í garð verkalýðshreyfingarinnar og hér fari allt á hliðina ef við gerum kröfu um að geta lifað með mannlegri reisn af dagvinnulaunum.
Ég vil spyrja og vinsamlega svarið, er ekki komið nóg af þessum gegndarlausa áróðri og hótunum? Ætlum við virkilega að láta í minni pokann fyrir hagstjórn aukinnar misskiptingar lífsgæða og auðsöfnun fárra. Ætlum við að gefa eftir landið okkar og þjóðarauð átakalaust með því að samþykkja að hlaupa hraðar og hraðar á hamstrahjóli auðvaldsins til þess eins að enda sem öreigar á lífeyri?
Rísum upp því saman verðum við ósigrandi.