Vigdís Hauksdóttir, borgarfulltrúi Miðflokksins, skrifar um átök innan ráðhúss Reykjavíkur og Sóley Tómasdóttir, fyrrverandi forseti borgarstjórnar, svarar henni.
Byrjum á að skoða hvað Vigdís skrifaði:
„Stjórnsýsla Reykjavíkur er í molum
Stjórnsýsla Reykjavíkur rannsakar sjálfa sig og tekur ekki mark á dómstólum!!!
Nýverið felldi Héraðsdómur Reykjavíkur dóm í eineltismáli innan ráðhússins. Sá sem lagður var í einelti vann fullan sigur, borgin ákvað að fara ekki með málið fyrir Landsrétt og þolanda dæmdar bætur.
Undir venjulegum kringjumstæðum væru þetta málalok.
Svo er ekki í ráðhúsinu.
Því nú hefur borgarritari virkjað eineltisteymi Skóla- og frístundasviðs til að „rannsaka málið“. Samkvæmt mínum upplýsingum var það gert að beiðni undirmanns hans – einmitt þess sem lagði þolandann í einelti sem starfar sem skrifstofustjóri borgarstjóra.
Þolandanum/fjármálastjóranum er nú gert, þvert gegn vilja sínum, að mæta á fundi vegna þessa.
Skrifstofa borgarstjóra heldur s.s. áfram með málið þó búið sé að dæma í því með afdráttarlausum orðum dómara um framkomu skrifstofustjóra í garð undirmanns.“
Sóleyju er ekki skemmt yfir skrifum Vigdísar:
Sæl Vigdís. Mér þykir miður að sjá þig ýfa upp mál, dylgja og fara með hreinar rangfærslur um embættismenn borgarinnar sem þú veist mætavel að geta ekki svarað fyrir sig á opinberum vettvangi. Alvöru stjórnmálafólk hefur kjark til að takast á við annað stjórnmálafólk um hugmyndafræði og stefnu í þágu borgarbúa.
Í dómnum er áminningin dæmd ólögmæt en því beinlínis hafnað að um óvild eða einelti hafi verið að ræða. Þú kýst að halda öðru fram gegn betri vitund. Það er grafalvarlegt og líklega hrein ærumeiðing.
Ég fæ ekki betur séð en að fullt mark hafi verið tekið á dómnum, ákveðið að áfrýja ekki og áminningin afturkölluð. Svo held ég að það sé nú bara fagnaðarefni að embættismenn skuli í kjölfarið fá sérfræðinga til að fara yfir starsfumhverfið á skrifstofunni og hvort þar sé pottur brotinn. Ég skil ekki hvaða tilgangi það þjónar að reyna að ala á tortryggni með þessum hætti.“