Fréttir

Með og á móti bankasölu

By Miðjan

September 16, 2019

Bjarni Benediktsson vill að ríkið selji Íslandsbanka til að fjármagna eitt og annað:

„Ég vil síðan nefna það, af því að hér er komið inn á sölu banka, að sala banka er tækifæri til að losa um mikla fjármuni og fara í sókn í innviðauppbyggingu.  Maður spyr sig hvort háttvirtur þingmaður sé hreinlega andvíg því að farið verði í sölu banka og losað um fjármuni til að forgangsraða upp á nýtt.“

Háttvirti þingmaðurinn er Oddný Harpardóttir. Hún er andvíg bankasöluhugmyndum Bjarna:

„Ég er andvíg því að farið verði í sölu bankanna áður en við höfum sett það niður fyrir okkur nákvæmlega hvernig við sjáum fyrir okkur að bankakerfið þróist á næstu árum og hvernig það muni helst þjóna almenningi í landinu. Ég vil ekki að bankarnir verði seldir í því formi sem þeir eru í dag. Ég vil að þeim verði skipt upp og ríkið grípi það tækifæri sem það hefur núna, þegar það á stærstan hluta í bankakerfinu, og aðskilji viðskiptabankastarfsemi frá fjárfestingarbankastarfsemi, að viðskiptabankastarfsemin verði fjármögnuð með innlánum og hugað að þjónustu við almenning, ódýrri og góðri þjónustu við almenning, en fjárfestingarbankastarfsemin verði fjármögnuð með öðrum hætti. Og þegar búið er að skipta upp kerfinu þá skulum við endilega selja fjárfestingarhlutann.“