Með leynifrumvarp um strandveiðar
Við erum látin greiða 72.000 krónur í rikisjóð til þess að geta hafið veiðar sem er gríðarlega mikill peningur fyrir jafn smáar útgerðir og strandveiðiútgerðir eru.
Vigfús Ásbjörnsson, formaður smábátafélagsins Hrollaugs á Höfn, skrifar:
Árið 2020 eru 10.000 tonn af þorski ætluð til strandveiða. Skert um 1000 tonn frá árinu 2019 án nokkura raka eða skýringa. Fréttamenn hafa ekki einu sinni fyrir því að spyrja sjávarútvegráðherra af hverju, hvað þá aðrir þingmenn eða ráðherrar. Árið 2017 var ætlað 9200 tonnum af þorski til strandveiða og aukningin er á þessum tíma frá 2017 hvorki meira né minna en heil 800 tonn af þorski handa um það bil 700 smábátum. Það er ekki nema brotabrot af því sem nokkrir krakkar frá Akureyri voru að fá í sumargjöf rétt í þess.
Í strandveiðikerfinu má veiða líka 1000 tonn af ufsa en þess ber að geta að þúsundir tonna af óveiddum ufsa brenna inni í fiskveiðikerfinu á ári hverju sem engin nýtir og er sóun á tækifærum og verðmætasköpun þjóðarinnar. 20% af aflaverðmæti ufsans rennur til ríkisins auk veiðigjalda þegar allar strandveiðiútgerðir þurfa á hverri einustu krónu að halda til að reka sig. Allt í einu eru þarna líka 100 tonn af karfa sem enginn veit neitt um né nokkrar skýringar hafa verið gefna á. Við megum veiða 4 daga í viku, 14 klukkustundir á dag, 12 daga í mánuði.
Já, 12 daga í mánuði ef við erum einstaklega heppin með veðurfar þá næst það, annars ekki. Já 12 daga pressan er nefninlega pressa sem ýtir okkur út í að róa í allskonar veðrum til þess að þó ná í þær krónur sem við mögulega getum náð inn til að reka útgerðir okkar. Við megum hafa 4 handfærarúllur um borð í bátunum, því ekki má nú vera hægt að ná skammtinum of fljótt í bátinn og það mætti halda helst bara ekki. Þetta meigum við stunda heila 4 mánuði á ári. Þorsk skammtur er 650 þorsk ígildi. Við erum látin greiða 72.000 krónur í rikisjóð til þess að geta hafið veiðar sem er gríðarlega mikill peningur fyrir jafn smáar útgerðir og strandveiðiútgerðir eru.
Það liggur alveg ljóst fyrir að strandveiðisjómönnum er gert eins erfitt fyrir og mögulegt er til þess að gera út sína báta.Á sama tíma og barist hefur þurft fyrir tilverurétti smábáta og alvöru eflingu á strandveiðikerfinu voru örfáum einstaklingum í landinu færðir tugir ef ekki hundruð milljarðar á silfufati í formi makrílkvóta. Menn sem hafa yfir að ráða aflamarki geta nú fært 25% af því á milli fiskveiðiára, stimmpilgjöld hafa verið afnumin á skipasölum sem kemur stórútgerðinni gríðarlega vel. Þessi gjöld voru 1,2 milljarðar árin 2008-2017. Alveg greinilegt að ríkistjórnin leggur sig þarna virkilega mikið fram til að stiðja við þessa gerð útgerðar en sama er ekki hægt að segja um strandveiðiútgerðir. Fram hefur komið, þó engin staðfesting sé á því að sjávarútvegráðherra sé að vinna eitthvað frumvarp varðandi strandveiðar. Leynifrumvarp? Af hverju er leynd yfir því hvað það frumvarp snýst um. Eigum við strandveiðimenn að búast við því að það frumvarp verði strandveiðútgerðum til góða eða ekki.
Óvissunni er viðhaldið á afkomu og fyrirsjánleika strandveiðimanna ár frá ári eins og það sé eitthvað lögmál að halda strandveiðisjómönnum í algerri óvissu um framtíðina. Eru stjórnvöld kanski hrædd við að efla byggðr landsins með öflugu strandveiðikerfi eða snýst þetta eflingarleysi kanski bar um eitthvað allt annað? Byggðir gætu jafnvel farið að dafna víða í kringum landið sem hlítur að vera skelfilegt. Ungt fólk fengi alvöru tækifæri til þess að nýta auðlind sína, það hlýtur lika að vera skelfilegt. Atvinna myndi eflast allt í kringum landið svo um munar, það hlýtur líka að vera alveg hræðilegt. Ég skora hér með á þá stjórnmálamenn sem láta sér velferð þjóðarinnar að einhverju verða að efla strandveiðikerfið svo um munar, þjóðin á það skilið og miklu meira en það.