„Hvernig getum við réttlætt það fyrir sjálfum okkur og öðrum að mikill meirihluti öryrkja eigi erfitt með að ná endum saman um hver mánaðamót?“
„Við búum í góðu samfélagi og flest höfum við það býsna gott,“ sagði Jóhann Páll Jóhannsson á Alþingi og sagði svo:
„En einhvern veginn hefur okkur ekki tekist að búa til almannatryggingakerfi sem við getum verið sæmilega stolt af. Það er bara þannig. Eða hvernig getum við réttlætt það fyrir sjálfum okkur og öðrum að óskertur örorkulífeyrir sé aðeins 265.000 kr. á mánuði, langt undir lágmarkslaunum, fimm sinnum lægri fjárhæð en mánaðarlaun okkar hérna í þessum sal? Hvernig getum við réttlætt það ástand að mikill meiri hluti fólks með skerta starfsgetu, fólk á örorku, þurfi að neita sér um heilbrigðisþjónustu vegna kostnaðar? Við getum það ekki. Hvernig getum við réttlætt það fyrir sjálfum okkur og öðrum að mikill meiri hluti öryrkja eigi erfitt með að ná endum saman um hver mánaðamót? Við getum það ekki. Þess vegna höfum við sameinast um þessa tillögu. Það sem er svo gleðilegt við hana, þessa eingreiðslu sem við höfum náð saman um, er að með henni erum við að horfast í augu þetta, við erum að viðurkenna þetta. Við erum að viðurkenna að okkur hefur ekki tekist að búa til gott kerfi fyrir fólk sem getur ekki unnið fyrir sér.“