Neytendavaktin Norðlenskt matvælafyrirtæki, sem hafði verið svipt starfsleyfi og því lokað af Matvækastofnun hélt samt áfram rekstri. Svo fór að öll matvæli fyrirtækisins voru tekin.
Matvælafyrirtækið hafði verið svipt starfsleyfi í nóvember 2014 og því lokað. Áður höfðu eftirlitsmenn Matvælastofnunar gert margvíslegar athugasemdir við þrif og umgengni og metið ástandið óviðunandi með tilliti til hollustuhátta við framleiðslu matvæla.
Þrátt fyrir lokunina og sviptingu starfsleyfis hélt fyrirtækið áfram starfsemi. Í mars 2015 mættu starfsmenn stofnunarinnar á staðinn og stöðvuðu starfsemina. Jafnframt var lagt hald á öll matvæli á staðnum.
Samkvæmt matvælalögum er opinberum eftirlitsaðilum heimilt að leggja hald á matvæli þegar rökstuddur grunur er um að matvælin uppfylli ekki ákvæði laganna.
Fyrirtækið kærði haldlagninguna til ráðuneytis og taldi hana ólögmæta. Engin sýni hefðu verið tekin af vörunni og því lægi ekkert fyrir um hvort matvælin væru örugg eða ekki. Starfsstöðin hefði fengið tímabundið starfsleyfi að nýju í apríl eftir að úrbætur hefðu verið gerðar. Ekki hefði verið uppfyllt ákvæði laga um rannsóknarskyldu og meðalhóf. Skilyrði haldlagningar hefðu ekki verið uppfyllt.
Ráðuneytið féllst ekki á rök kæranda og staðfesti haldlagningu Matvælastofnunar. Ráðuneytið benti á að fyrirtækinu hefði verið lokað vegna þess að brotið hefði verið gegn ákvæðum um hollustuhætti og öryggi við framleiðslu matvæla sem og að heimilt sé að leggja hald á matvæli þegar rökstuddur grunur væri um að matvæli uppfylli ekki ákvæði um framleiðslu þeirra. Skilyrði fyrir slíkum rökstuddum grun voru fyrir hendi þegar matvæli eru framleidd á starfsstöð sem hefur verið svipt starfsleyfi vegna endurtekinna brota á lögum um hollustuhætti og umgengni.
Ráðuneytið tók einnig fram að Matvælastofnun hafi gætt meðalhófs við meðferð málsins, enda hafi ekki verið rétt lögum samkvæmt að beita vægara þvingunarúrræði, „enda var markmið ákvörðunar Matvælastofnunar að stöðva markaðssetningu og framleiðslu vöru sem rökstuddur grunur var á að væri heilsuspillandi.“