„Langlífi Íslendinga byggist fyrst og fremst á genum og almennt góðu heilsufari, menntun, húsnæði, tekjum og gott mataræði á sinn þátt í því, en er ekki aðalatriðið, nei,“ sagði Sigurður Guðmundsson, fyrrverandi landlæknir og smitsjúkdómafræðingur, í þættinum Í bítið á Bylgjunni í gærmorgun.
Rætt var um innflutning á hráu kjöti og takmarkanir sem hér eru. „Af hverju er reglur eða lög hér svona stíf. Það er fyrst og frems vegna þess að sporin hræða,“ sagði hann og nefndi að sauðfé hefur smitast af innfluttum dýrum. Annað er innflutningur á dýraafurðum. „Það er orðið býsna langt síðan að sjúkdómar bárust í búfé vegna þess, var síðast upp úr 1950.“
Sigurður benti á að við Íslendingar höfum ekki þurft erlendan mat til að veikjast af því sem við borðum, hann nefndi þekkta niðurgangssjúkdóma í því til sönnunar. Svo sem salmonellu.
„Það eru til á annað þúsund sýkla sem geta valdið sjúkdómum í mönnum.“
Hann segir þekkingu og vitneskju allt aðra en áður og hættan sé ekki sú sama og áður.
„Við megum ekki gleyma því að við gerum mikið af því að flytja kjöt úr landi og enginn hefur gert athugasemdir um það og afhverju skyldum við ekki snúa dæminu við,“ sagði Sigurður og benti á hversu tækni og þekking um meðferð og geymslu matvæla hefur breyst.