- Advertisement -

„…massinn greiðir skatta af engum tekjum…“

Brynjar Níelsson og Bergþór Ólason voru mjög sammála í umræðunni um fjárlög næsta árs. En þeir voru meðal margra þingmanna sem töluðu.

Byrjum á Brynjari, en hann beinir orðum sínum til Bergþórs:

„Háttvirtur þingmaður beindi til mín spurningu um fjármagnstekjuskattinn og ég held sjálfur að í því sé mikil flækja fyrir okkur að reyna að reikna út hinar raunverulegu fjármagnstekjur. Það hefur verið útbreitt í umræðunni að menn séu að greiða lítinn skatt af fjármagnstekjum en massinn greiðir skatta af engum tekjum vegna þess að skattur er greiddur af öllum verðbótunum. Það er ákveðinn vandi sem við glímum við. Ég spyr háttvirtan þingmann hvort ekki væri einfaldara að lækka þennan skatt eins og við gerðum áður í staðinn fyrir að fara í þá flóknu aðgerð að reyna að finna nákvæmlega út hinar raunverulegu tekjur. Ég veit að nágrannaþjóðirnar eru með skatt á svipuðum nótum og við núna en þar greiða menn í raun og veru lægri skatt vegna þess að hann er tekinn af raunverulegum tekjum. Það kallar á mjög þungt kerfi hjá okkur. Ég spyr hvort háttvirtur þingmaður sé ekki sammála mér í að það væri einfaldara að lækka skattinn. Við sjáum hver massinn af fjármagnstekjum er fyrir hinn venjulega Íslending. Þótt það sé að vísu frítekjumark borgar hann fjármagnstekjuskatt af engum tekjum.“

Nú var spenna í lofti. Náði Bergþór innihaldi ræðu Brynjars eða ekki. Bergþór stóðs prófið:

É g er þeirrar gerðar að ég vil hafa kerfið eins einfalt.

„Ég er algjörlega sammála háttvirtum þingmanni, auðvitað væri eina vitið að færa skattinn aftur til fyrra horfs. Þegar hann leggur til að skattprósentan fari í 20% gæti ég reyndar tekið upp á því að koma með breytingartillögu um að setja hana niður í 18–19% en ég myndi alveg sætta mig við að setja hana í 20% aftur. Ég held að þetta hafi hreinlega verið mistök og sennilega er það þannig að þegar menn tóku ákvörðun um að útfæra skattinn svona hefur blasað við mönnum hversu mikið flækjustig fylgir því að greina raunávöxtun hverju sinni. Ég er þeirrar gerðar að ég vil hafa kerfið eins einfalt og gagnsætt og nokkur kostur er með hóflegri skattheimtu. Ég minni á það árlega, þó að menn séu bara búnir að framkvæma skattahækkunarlegginn af þessari aðgerð, að ég held að það væri til mikilla bóta að láta skattahækkunina úr 20% í 22% ganga til baka í stað þess að vinna að raunávöxtunarmarkmiðinu. En annaðhvort þarf að gerast og ef ég fæ einhverju ráðið mun atkvæði mitt falla með því að lækka skattprósentuna frekar en að auka flækjustigið,“ sagði Bergþór Ólason.

Segjum þetta gott frá Alþingi að sinni.


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: