Ritstjóri Moggans er að átta sig á alvörunni. Eins gerir útgerð Moggans það sama. Hætt er á einangrun. Allt bendir til að nú hafi öllu afli verið eytt úr aðstoðarflokkunum tveimur, Vinstri grænum og Framsókn. Ríkisstjórnin mun ekki standa af sér komandi kosningar.
Því þarf að leita á önnur mið til að tryggja kyrrstöðuna. Óbreytt kvótakerfi, óbreytta stjórnarskrá og svo framvegis. En hvert? Hvaða flokkar eru tibúnir í stjórn með Sjálfstæðisflokki og eyða þannig öllu sínu. Verða eftir sem rjúkandi rúst? Góð ráð eru dýr.
Staksteinar Moggans segja í dag: „Eitt af því sem skotið hefur upp kollinum á undanförnum misserum og vaxið ásmegin á því ári sem nú er að líða er útilokunaráráttan í stjórnmálum og í þjóðmálaumræðu almennt.“
Og svo er það stóri punkturinn: „Útilokunaráráttan birtist til dæmis í því að tilteknir stjórnmálaflokkar eða stjórnmálamenn útiloka samstarf við aðra á þeirri forsendu að hinir séu ekki aðeins á röngu róli pólitískt heldur beinlínis slæmir flokkar eða slæmar manneskjur.“
Þarna stígur ritstjórinn sennilega of fast til jarðar. Fólkið í þingliði Sjálfstæðisflokksins hefur ekki verið sagt slæmt fólk í sjálfu sér. Margt sem þau hafa gert hefur vissulega orkað tvímælis.
Það er ekkert leyndarmál að áratugum saman hefur Sjálfstæðisflokkurinn beitt sér gegn andstæðingum sínum, hér og þar í samfélaginu, og mulið undir sitt fólk. Nú óttast flokksmenn að þeirra bíði þau örlög sem þeir hafa kallað yfir aðra.
„Allir hinir, þeir sem ekki hljóta náð fyrir augum útilokunarsinnanna, eru óalandi og óferjandi og þá verður að útiloka frá öllum opinberum embættum, einangra þá og helst auðmýkja opinberlega. Samfélagsmiðlar virðast hafa ýtt undir þessa ómenningu enda hefur fólk tilhneigingu til að verða öfgafullt í bergmálshellum þeirra.“
Kosningarnar verða spennandi. Staksteinar opna hér á eitt helsta átakamálið. Það er Sjálfstæðisflokkurinn og formaður hans, Bjarni Benediktsson. Kostir flokksins til áframhaldandi valda þrengjast.