Davíð getur stundum verið meira einnar krónu virði: „Hér á landi eru til þeir stjórnmálamenn í Sjálfstæðisflokki sem telja fínast alls að feta slóð norrænna stjórnmálamanna, sem margir eru sem vasaútgáfur af óáhugaverðum stjórnmálamönnum sem ESB hefur á sínu bandi og í því,“ skrifar hann í Reykjavíkurbréfið. Og svo kemur þetta:
„Ólafur Thors gaf engin færi á slíku og fleiri marktækir foringjar sama flokks höfðu einnig nokkurn vara á sér.“
Þarna er greinilega vegið að Þorsteini Pálssyni. Svo vel þekki ég Þorstein að ég er viss um að honum er nákvæmlega sama hvað Davíð skrifar. Alveg nákvæmlega.
Aðeins fyrr í Reykjavíkurbréfinu stendur:
„Og það má einnig benda á hrakfarir danska Íhaldsflokksins eftir hvarf Pouls Schlüthers úr forystuhlutverki, eftir að hafa setið í rúm 10 ár samfellt sem forsætisráðherra. Schlüter tók þann pólitíska pól í sína hæð að gera flokk sinn og stefnu hans lítt sjáanlega. Hann vildi fátt af því vita, hvað þá að líkja sínum flokki við það sem þá var að gerast hjá hægri mönnum undir leiftrandi forystu þeirra Thatcher og Ronalds Reagans. Schlüther gekk svo langt í þessum áherslum að hann kom beinlínis í veg fyrir að frú Thatcher kæmi í opinbera eða hálfopinbera heimsókn til Danmerkur til að hún næði ekki að tengja hann sjálfan og flokkinn við þá ímynd sem þau stóðu fyrir og náðu óneitanlega miklum árangri. En hann hafði hins vegar ekkert á móti því að samsama sig og flokkinn sinn Bush-feðgum vestra, enda væru þeir á hefðbundnum kanti tilverunnar.“
Stundum er Mogginn líka meira en krónu virði.