Séreignarstefnan hefur verið einn, og kannski helsti, hornsteinninn í stefnu Sjálfstæðisflokksins. Það þekkja allir.
„Það er mikið umhugsunarefni fyrir Sjálfstæðisflokkinn að sú séreignarstefna í húsnæðismálum, sem telja má hluta af sjálfum kjarnanum í því sem flokkurinn hefur staðið fyrir áratugum saman, virðist vera að líða undir lok – án þess að nokkur pólitísk umræða liggi því til grundvallar.“
Þannig skrifar oddviti Sjálfstæðisflokksins í Suðurkjördæmi, Páll Magnússon á Facebook. Hann nefnir sérstaklega ungt fólk. „Þetta á ekki síst við um ungt fólk sem gert hefur verið nánast ókleift að eignast sína fyrstu íbúð. Þetta lýtur að sjálfri grunngerð samfélagsins og Sjálfstæðisflokkurinn getur ekki setið hjá og látið eins og ekkert sé,“ skrifar þingmaðurinn.
Nú er margt öðruvísi en áður var. Í stað séreignarstefnunnar er önnur stefna ráðandi. Hér hafa orðið til ótrúlega öflug leigufélög, félög sem eiga þúsundir og aftur þúsundir íbúða. Við þau keppir ekki venjulegt fólk. Leigufélögin ráða markaðnum. Húsaleiga hefur hækkað mikið. Félögin þurfa jú að skila arði. Tekjurnar koma allar frá leigutökum, ungu fólki og eða fátæku.
Hornsteinn Sjálfstæðisflokksins týndist í öllu óðagotinu. Markaðurinn ræður för. Fólkið hefur orðið undir.