- Advertisement -

Gunnar Smári: Markaðs- og einkavædd húsnæðisstefna

Vandinn við húsnæðisstefnu Reykjavíkurborgar er ekki sá að byggt sé miðsvæðis en ekki á jaðrinum. Vandinn er að borgin lætur markaðnum (lesist: verktökum) algjörlega eftir að stýra stefnunni. Þeir byggja ekkert ef ekki er nægur munur á byggingarkostnaði og markaðsverði. Þess vegna var ekkert byggt fyrstu árin eftir Hrun. Og þegar hagur hinna best settu fór að vænkast og þegar ferðamenn fóru að streyma til landsins fóru verktakar að byggja fyrir ríka fólkið og ferðamennina.

Ekkert var byggt fyrir þá hópa sem verst urðu úti í húsnæðiskreppunni; lífeyrisþegar og láglaunafólk á leigumarkaði, fjölskyldurnar sem höfðu misst íbúðir sínar til leigufélaganna og unga fólkið sem vill flytja að heiman. Á meðan verktakar sjá ekki fram á að geta grætt á að byggja fyrir þessa hópa er ekkert byggt fyrir þessa hópa. Ef borgin ræki félagslega húsnæðisstefnu byggða á þörfum og vilja borgarbúa hefði hún staðið fyrir byggingu félagslegs íbúðarhúsnæðis strax eftir Hrun til að mæta þörfum þessara hópa.

Þar sem félagslegt húsnæði fer aldrei á markað skiptir engu hvort það er byggt þegar markaðsverð á hinum villta markaði spákaupmanna er hátt eða lágt. Húsnæðisvandinn í Reykjavík er því ekki afleiðing þess að byggt er miðsvæðis í stað þess að byggja á jaðri byggðarinnar heldur vegna þess að húsnæðisstefna borgarinnar hefur verið markaðs- og einkavædd að fullu, borgin skilar auðu þegar kemur að félagslegu húsnæðiskerfi, einni af þremur mikilvægustu stoðum velferðarkerfisins. Það er meðal annars arfleið R-listans sem núverandi vinstrimeirihluti viðheldur. Pælið í því.

Gunnar Smári Egilsson.

Þú gætir haft áhuga á þessum

Auglýsing

Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: