Markaðir virka engann veginn án virkra hagsmunasamtaka almennings
Gunnar Smári skrifar: Félagsgjöld verkalýðsfélaga eru 0,7% af heildarlaunum. Atvinnutekjur eru um 1100 milljarðar króna árlega og því renna tæplega 8 milljarðar króna til samtaka launafólks til að reka hagsmuni þess gagnvart atvinnurekendum. Félagsgjöld sem runnu til VR árið 2017 voru tæplega 1,3 milljarðar. Í VR eru rúmlega 35 þúsund félagar af tæplega 238 þúsund á vinnumarkaði. Ef VR endurspeglar vinnumarkaðinn má ætla að félagsgjöld séu nærri 8,7 milljörðum króna á ári á landinu öllu.
Félagsgjöldin eru lögð á til að vinna upp valdaójafnvægið á vinnumarkaði. Ef launafólk binst ekki samtökum mun hver launamaður standa veikt gagnvart því fyrirtæki sem hann selur vinnu sína. Þetta þekkjum við úr sögunni, frá löndum þar sem verkalýðsfélög eru veik og héðan úr okkar samfélagi af veikri stöðu innflytjenda á vinnumarkaði, sem þekkja illa rétt sinn og verkalýðsfélögin hafa ekki náð að vernda fyrir fyrirtækjaeigendum.
Fáir aðrir en heilaþvegnir nýfrjálshyggjunöttarar
Til að halda uppi heilbrigðum vinnumarkaði er nauðsynlegt að skattleggja launagreiðendur til að afla fjármagns til að reka öflug hagsmunasamtök þeirra em selja vinnu sína. Við getum deilt um hvort verkalýðsfélögin hafi rekið öfluga hagsmunagæslu fyrir félagsmenn sína á undanförnum áratugum, en fáir aðrir en heilaþvegnir nýfrjálshyggjunöttarar efast um að til að reka heilbrigðan vinnumarkað verði að skattleggja markaðinn svo hægt sé að reka öfluga hagsmunagæslu fyrir þau sem standa of veikt ein og sér.
Hefur skilað neytendum lægra verði
Af þessu er góð reynsla og við ættum að yfirfæra hana yfir á aðra markaði. Velta smásöluverslunar, fyrir utan bifreiðasölu, var í fyrra tæplega 460 milljarðar króna. Ef við ætluðum að byggja upp heilbrigðan smásölumarkað þar sem neytendur gætu nýtt afl fjöldans en stæðu ekki ætíð einir og veikir gagnvart fyrirtækjum sem selja þeim vörur, gætum við lagt 0,7% gjald á þessa veltu og látið renna til Neytendasamtakanna. Það jafngildir um 3,2 milljörðum króna eða um 50% meira en nemur veltu norsku neytendasamtakanna, Forbrukerrådet. Starfsemi norsku samtakanna, eins og annarra neytendasamtaka á Norðurlöndum og víðar í norðvesturhluta Evrópu, hefur byggt upp öfluga neytendavernd og aðhald á markaði, starf sem hefur skilað neytendum lægra verði, betri þjónustu og meiri réttindum. Uppbygging öflugra neytendasamtaka er því fjárfesting sem borgar sig fyrir neytendur, er líklega það skynsamlegast sem Íslendingar geta gert.
Ísland er markað af fákeppni og okri
Ísland er markað af fákeppni, okri og veikum réttindum neytenda. Það er afleiðing veikra neytendasamtaka. Íslendingar eru hver um sig ekkert ólíkir öðru fólki, ekki verri neytendur en hver annar. En ef þeir hafa engin tæki til að verja sig gagnvart fyrirtækjum sem selja þeim vöru og þjónustu þá hrekjast þeir út í horn og verða að sætta sig við það sem að þeim er rétt. Ef Íslendingar vilja draga úr okri og auka rétt neytenda er ein leið fær, sem er flestum þjóðum kunn, að efla samtök neytenda.
Neytendasamtökin rétt skrimta
Ég skal viðurkenna að það er kannski of vel í lagt að byggja hér upp samtök neytenda sem velta meiru en norsku systursamtökin. Við skulum því lækka hlutfallið úr 0,7% niður í 0,5% og taka frá þær vörur sem eru undanþegnar virðisaukaskatti eða eru í neðra þrepi skattsins, svo sem matvara. Eftir það myndi 0,5% af veltu smásöluverslunar sem tilheyrir efra þrepi virðisaukans renna til Neytendasamtakanna, líklega um 1,2 milljarðar króna. Þeir fjármunir munu án efa skila sér í lægra verði til neytenda, lækkun sem mun vega mun þyngra en þetta félagsgjald, og skila fljótt auknum rétti og bættri þjónustu við neytendur. Smásölumarkaðurinn myndi þroskast úr einstefnu, þar sem neytandinn hefur lítinn sem engan rétt og veika rödd, yfir í markað þar sem neytendur geta veitt verslunum og þjónustufyrirtækjum taumhald. Í dag velta Neytendasamtökin um 100 milljónum króna árlega, rétt skrimta og eru órafjarri því að geta veitt viðlíka þjónustu og önnur neytendasamtök í okkar heimshluta.
Helsjúkur leigumarkaður
Sama mætti gera við leigumarkaðinn, sem er markaður sem er helsjúkur vegna ójafnrar stöðu leigjenda og leigusala. Leigjendur verða að sæta sig við taumlaust okur og beygja sig undir óeðlilegar kröfur leigusala um fyrirframgreiðslur, skamman uppsagnarfrest, allskyns vottorð og fleira sem hinum sterka á markaðnum dettur í hug að leggja á hinn veika.
Stóreflum samtök leigjenda
Ef við gerum ráð fyrir að meðalleiga á þeim um 30 þúsund íbúðum sem er leigðar út á landinu sé um 150 þús. kr. á mánuði þá veltir leigumarkaðurinn rúmlega 50 milljörðum króna árlega. Með því að leggja 0,7% félagsgjald á þessa leigu, t.d. með því að innheimta sambærilega upphæð í gegnum fjármagnstekjuskatt, mætti leggja tæplega 400 milljónir króna til reksturs Samtaka leigjenda á Íslandi, en þau samtök hafa verið rekin af sjálfboðavinnu undanfarin ár. Lang besta leiðin til að koma skikki á leigumarkaðinn er að stórefla samtök leigjenda, sem geta síðan veitt leigusölum aðhald og beitt stjórnvöld þrýstingi til að auka rétt leigjenda og koma einhverjum böndum á þennan ömurlega markað.
Fyrirmyndin er til
Annað dæmi um hvernig veik staða almennings hefur búið til óeðlilegan markað er lánamarkaðurinn. Það þarf ekki að eyða orðum á hversu veikt skuldarinn stendur gagnvart fjármálafyrirtækjum, við upplifðum það fyrir fáum árum og mörg okkar eru enn að upplifa það. Eftir hrun var lagður skattur á lánastofnanir til að stofna til embættis umboðsmanns skuldara, embætti sem veltir um 340 milljónum króna í dag. Það er hins vegar ekki upplifun margra sem hafa leitað til umboðsmanns skuldara að markmið hennar sé að sveigja fjármálamarkaðinn frá hagsmunum lánardrottna að hagsmunum skuldara. En þessi ráðstöfun, að skattleggja fjármálafyrirtæki til að fjármagna umboðsmann skuldara, er til fyrirmyndar. Það mætti nota hana til að byggja upp hagsmunasamtök skuldara, hlutverk sem Hagsmunasamtök heimilanna hafa reynt að sinna af veikum mætti.
Styrkja rödd skuldara
Gjald á bankastarfsemi er lagt á heildarskuldir fjármálafyrirtækja, 0,375%. Áætlað er að það færi ríkissjóði rúma 10 milljarða í ár. Með því að setja um 5% af þessu gjaldi til Hagsmunasamtaka heimilanna, og skilgreina þau sem hagsmunasamtök skuldara, mætti veita fjármálastofnunum aðhald og styrkja rödd skuldara innan stjórnsýslu og stjórnmála. Önnur leið væri að leggja 0,7% félagsgjald á fjármagnstekjur en það myndi gefa tæpan milljarð. 0,5% félagsgjald til hagsmunasamtaka skuldara, til samræmis við það sem ég nefndi að ofan sem eðlilegt framlag til Neytendasamtaka af veltu smásöluverslunarinnar, gæfi um 700 milljónir króna.
Afgerandi valdaójafnvægi
Og svona má halda áfram; leggja gjald á tryggingariðgjöld til að byggja upp hagsmunagæslu almennings gagnvart tryggingafélögunum, leggja gjald á flugmiða til að byggja upp samtök ferðafólks o.s.frv. Einhverjum kann að finnast þetta stórar tillögur og háar upphæðir. Valdaójafnvægið á íslenskum neytendamarkaði, leigumarkaði, lánamarkaði og öðrum mörkuðum er hins vegar svo afgerandi og hefur getið af sér svo óeðlilega stöðu að það mun ekki duga annað til en að stórefla völd almennings og neytenda. Meðan fyrirtækin ráða öllu í skjóli veikrar stöðu neytenda munu þau halda áfram að okra á landsmönnum, veita slælega þjónustu og brjóta á rétti neytenda, leigjenda og skuldara.
Og svona má halda áfram; leggja gjald á tryggingariðgjöld til að byggja upp hagsmunagæslu almennings gagnvart tryggingafélögunum, leggja gjald á flugmiða til að byggja upp samtök ferðafólks o.s.frv.