- Advertisement -

Marinó hefur áhyggjur af hegðun Sjálfstæðisflokksins í stjórnarandstöðu

Það sem hefur alltaf vakið furðu mína varðandi Sjálfstæðisflokkinn og gert mig fráhverfan því að hugleiða að veita honum stuðning, er að hann er ekki í stjórnmálum til að gæta hagsmuna landsmanna.

Marinó G. Njálsson.

Marinó G. Njálsson skrifar:

Hún er sérkennileg umræðan um hvort Flokkur fólksins sé stjórntækur eða ekki. Rökin sem eru gefin, að flokkurinn hafi ekki verið í ríkisstjórn áður.

Í þingmannaliði Samfylkingar og Viðreisnar eru tveir þingmenn sem hafa verið ráðherrar, þ.e. Þórunn Sveinbjarnardóttir og Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir. Munar greinilega öllu.

…sjáum við þetta viðhorf bara hjá þingmönnum Repúblikana…

Hvernig á flokkur að verða stjórntækur, að mati þeirra sem setja fram svona rök, ef hann tekur ekki á einhverjum tímapunkti þátt í stjórnarsamstarfi? Rökin ganga út á, að aldrei sé hægt að hleypa nýjum, óreyndum flokki til valda, vegna þess að hann er óreyndur. Hvernig á hann að öðlast reynsluna?

Ég held að menn séu að misskilja þetta hugtak „óstjórntækur“. Það snýst ekki um reynslu af því að vera ráðherrar, heldur að þeir flokkar sem myndi ríkisstjórn séu samstíga og vinni að settum og samþykktum markmiðum. Hvort Flokki fólksins tekst það, á eftir að koma í ljós, en það kemur ekki í ljós nema hann fái tækifæri í ríkisstjórn.

Ykkur að segja, þá hef ég mun meiri áhyggjur af hegðun Sjálfstæðisflokksins í stjórnarandstöðu, því hann mun hafa það eina markmið að skemma fyrir, enda er það ekki hlutverk formanns stjórnarandstöðuflokks „að standa með því sem hann telur rétt fyrir þjóðina“, svo vitnað sé í tæplega 14 ára gömul orð þáverandi varaformanns flokksins. Gleymum því svo ekki, að Bjarni sleit stjórnarsamstarfinu vegna þess að hann hafði ekki komið málefnum flokksmanna í gegn!

Birgir Ármannsson verður síðan örugglega fenginn til að kenna næsta þingflokksformanni á excel-skjalið góða, sem notað var síðast þegar Sjálfstæðisflokkur var utan stjórnar (2009-2013), til að halda uppi málþófi allt kjörtímabilið og koma í veg fyrir framgang þjóðþrifamála. Kannski breytast áherslur með nýjum formanni sem tekur líklega í síðasta lagi við á næsta Landsfundi Sjálfstæðisflokksins.

Það sem hefur alltaf vakið furðu mína varðandi Sjálfstæðisflokkinn og gert mig fráhverfan því að hugleiða að veita honum stuðning, er að hann er ekki í stjórnmálum til að gæta hagsmuna landsmanna, heldur til að gæta sérhagsmuna þeirra sem fjármagna flokkinn. Af ríkjum Vesturlanda, þá sjáum við þetta viðhorf bara hjá þingmönnum Repúblikana í Bandaríkjunum.

Greinina birti Marinó fyrst á eigin Facebooksíðu. Hún er birt hér með góðfúslegu leyfi höfundar.


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: